Innlent

Rannsókn lokið: Ásmundarsalarmálið sent ákærusviði

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, var viðstaddur sölusýningu í Ásmundarsal þegar lögregla mætti á vettvang vegna sóttvarnabrota.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, var viðstaddur sölusýningu í Ásmundarsal þegar lögregla mætti á vettvang vegna sóttvarnabrota.

Lögregla hefur lokið rannsókn á mögulegum sóttvarnabrotum í Ásmundarsal á Þorláksmessu. Að sögn Jóhanns Karls Þórissonar aðstoðaryfirlögregluþjóns verður málið sent ákærusviði lögreglunnar í dag, ef það er ekki þegar komið þangað.

Lögregla hefur meðal annars skoðað upptökur úr búkmyndavélum lögreglumanna sem mættu á vettvang. Að sögn Jóhanns Karls mun ákærusvið taka ákvörðun um það hvort sektir verða gefnar út vegna málsins eða ekki.

Forsaga málsins er sú að lögregla greindi frá því á aðfangadag að „hæstvirtur ráðherra“ hefði verið viðstaddur viðburð í miðborginni kvöldið áður, sem leystur hefði verið upp af lögreglu vegna sóttvarnabrota.

Kom fram að tugir hefðu verið samankomnir og grímuskylda og nálægðartakmörk ekki virt en eigendur staðarins, Ásmundarsalar, sögðust síðar hafa haft heimild fyrir þeim fjölda sem fyrir var. Óumdeilt er hins vegar að margir viðstaddra virtu grímuskylduna að vettugi.

Um var að ræða sölusýningu og í ljós kom að umræddur ráðherra var Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra, sem mætti ásamt eiginkonu sinni og stoppaði við í fimmtán mínútur, að eigin sögn. Sagðist hann ekki hafa gerst brotlegur við sóttvarnalög.

Jóhann Karl segir um 30 mál sem tengjast meintum sóttvarnabrotum í vinnslu hjá lögreglu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×