Innlent

Skoða hver ábyrgð Veitna sé vegna tjónsins í HÍ

Sunna Kristín Hilmarsdóttir og Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifa
Ljóst er að gríðarlegt tjón varð í byggingum Háskóla Íslands vegna lagnarinnar sem rofnaði í nótt.
Ljóst er að gríðarlegt tjón varð í byggingum Háskóla Íslands vegna lagnarinnar sem rofnaði í nótt. Vísir/Egill

Arn­dís Ósk Ólafs­dótt­ir, for­stöðumaður vatns- og frá­veitu hjá Veit­um, segir að það eigi eftir að koma í ljós hvort fyrirtækið sé skaðabótaskylt vegna vatnstjónsins sem varð í byggingum Háskóla Íslands í nótt eftir að stór kaldavatnslögn við skólann rofnaði með tilheyrandi vatnsleka.

Veitur séu tryggðar hjá VÍS og með ábyrgðartryggingu á þeim tjónum sem þær bera ábyrgð á.

Arndís segir það tryggingafélagsins að skoða hvort tryggingar Veitna grípi það tjón sem varð í HÍ en hafin sé vinna við rótarorsakagreiningu málsins. Sú vinna sé mikilvæg meðal annars vegna tryggingamála.

Það var rétt fyrir klukkan eitt í nótt sem lögnin rofnaði. Það tók starfsfólk Veitna um 75 mínútur að loka fyrir lekann en á þeim tíma runnu 2.250 tonn af vatni út.

Arndís segir að verið sé að skoða hvað gerðist. Allir vinklar verði kannaðir og ekkert útilokað í þeim efnum.

„Við erum aðeins að skoða hvað kom til. Það sem við vitum er að þetta er gömul lögn sem við erum að endurnýja og að það eru framkvæmdir á staðnum en það verður gerð rótarorsakagreining á þessu og við erum að vinna í henni,“ segir Arndís.

Starfsfólk Veitna sá það strax í stjórnstöð þegar það varð þrýstifall í nótt.

„Korteri seinna þegar lögreglan hafði samband við okkur þá vorum við búin að staðsetja lekann og kalla út mannskap. Þetta er stór stofnlögn og það tekur tíma en ég er mjög ánægð með viðbrögð hjá okkar fólki. […] Þetta eru nokkrir stórir lokar sem þarf að loka fyrir og það er ekki eins og á krana, það tekur tíma,“ segir Arndís.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.