Innlent

Vegrið vantar við tugi kílómetra vegarins um Ísafjarðardjúp

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar

Rannsókn lögreglu á tildrögum banaslyssins sem varð í Skötufirði á laugardag er ekki lokið. Hálka var á veginum þegar slysið varð og afar lélegt símasamband var á svæðinu. Þá voru engin vegrið við veginn þar sem að bíllinn rann út af og hafnaði í sjónum. Upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar segir að samkvæmt úttekt sem gerð var við Ísafjarðardjúp árið 2013 vanti vegrið á nokkurra tuga kílómetra kafla, meðal annars í Skötufirði, til að uppfylla núgildandi kröfur.

„Það er ómögulegt að segja fyrr en rannsókninni er lokið og þá kemur væntanlega í ljós hversu miklu máli það skipti að þarna var ekki vegrið. Allar okkar öryggisráðstafanir, sem vegrið eru, eru skipta auðvitað máli. Þannig að það skiptir máli,“ sagði G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, í beinni útsendingu í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.

En hvers vegna er ekki vegrið á þessum vegarkafla?

„Við tókum þennan kafla út í Djúpinu, 120 kílómetra, við tókum þann kafla út árið 2013 og það eru 120 kílómetrar og við fundum út að það þyrfti að vera samkvæmt okkar nýjustu reglum um þessi mál, þá þyrftu að vera 75-80 kílómetrar til viðbótar af vegriðum. Það gerum við ekki í einum vettvangi, sérstaklega ekki í ljósi þess að það kostar um það bil tólf milljónir á kílómetrann að setja upp vegrið, þannig að þetta eru miklar upphæðir sem þarna er um að ræða. Og ekki bara í Djúpinu heldur alls staðar á landinu auðvitað. En við erum samt sem áður löngu byrjuð og erum alltaf að vinna að því að setja upp vegrið þar sem að við teljum að þau þurfi að vera. Og til dæmis í Skötufirðinum, innst að austanverðu, erum við búin að setja upp vegrið,“ svaraði G. Pétur.

Nú hefur orðið þetta hræðilega slys, verður forgangsmál að setja upp vegrið þarna núna?

„Við auðvitað skoðum alltaf öll slys. En við reynum líka að gera þetta þannig að forgangsraða eftir aðstæðum á hverjum stað og ekki endilega af því það hafi orðið slys heldur líka þar sem aðstæður eru þannig að við reiknum með að það sé mjög hættulegt að það gerist eitthvað, þannig að við höldum okkur við þá forgangsröðun sem við höfum,“ sagði G. Pétur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×