Enski boltinn

Litblindir kvörtuðu mikið vegna leiks Liverpool og Man. Utd

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anthony Martial hjá Manchester United fer framhjá Liverpool manninum Thiago en Fabinho fylgist með.
Anthony Martial hjá Manchester United fer framhjá Liverpool manninum Thiago en Fabinho fylgist með. EPA-EFE/Paul Ellis

Hundruð kvartana hafa komið fram eftir útsendinguna frá stórleik Liverpool og Manchester United um helgi.

Það var þó ekki verið að kvarta yfir markaleysinu þótt að leikurinn hafi endað með markalausu jafntefli.

Stóra vandamálið með sjónvarpsútsendinguna frá leiknum voru búningar liðanna tveggja.

Hér áður fyrr, þegar leikir voru sendir út í svarthvítu, þá þurfti að passa upp á það að liðin spiluðu í ljósum og dökkum búningum. Síðan að skipt var yfir í lit þá hafa menn oftast fylgt sömu vinnureglu en ekki alltaf. Það sannaðist á Anfield á sunnudaginn.

Búningar Liverpool og Manchester United um síðustu helgi féllu nefnilega algjörlega á litaprófinu.

Manchester United hefur vanalega notað hvíta búninginn sinn, með svörtu röndunum, í útileikjum sínum en mættu að þessu sinni í grænum búningum.

Það reyndist síðan nánast ómögulegt fyrir litblinda að sjá muninn á þeim búningum og rauða búningi Liverpool manna.

ESPN segir frá óánægju litblindra og að kvörtunum hafi rignt yfir Twitter-síðu baráttusamtaka litblindra í Bretlandi, @colourblindorg.

„Þetta er alltaf að gerast en þetta hefur verið sérstaklega slæmt síðasta árið,“ sagði Kathryn Albany-Ward, framkvæmdastýra Colour Blind Awareness samtakanna, í viðtali við ESPN. Hún nefndi annan leik með sama vandamál sem var leikur Southampton og Sheffield United.

Hins vegar var áhuginn svo miklu meiri á stórleik Liverpool og Manchester United og því hafa kvartanirnar aldrei verið fleiri.

Einn af hverjum tólf karlmönnum og ein af hverjum 250 konum glíma við arfgenga lindblindu og það ætti því að vera krafa um að þeir geti greint á milli liðanna sem eru að spila.

NFL-deildin í Bandaríkjunum hefur sem dæmi hert sínar búningareglur til þess að passa upp á að svona hlutir gerist ekki og að allir geti séð í hvoru liði leikmennirnir séu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×