Innlent

Fjöl­skyldan fer í aðra sýna­töku á morgun

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Frá vettvangi í Skötufirði í dag.
Frá vettvangi í Skötufirði í dag. Vísir/hafþór

Par um þrítugt og ungt barn þeirra, sem keyrðu út af veginum í Skötufirði fyrr í dag og út í sjó, fara í seinni sýnatöku á morgun. Þau voru á leið heim til sín eftir að hafa verið erlendis og fóru í sýnatöku við komuna til landsins sem skilaði neikvæðum niðurstöðum.

Fjölskyldan var flutt á sjúkrahús í Reykjavík með þyrlum Landhelgisgæslunnar rétt eftir hádegi í dag. Þau eru nú á bráðamóttökunni í Fossvogi og á Hringbraut. Parið, kona og karl, eru fædd 1989 og 1991. Ekki er vitað hve gamalt barnið er.

Viðbragðsaðilar sem kallaðir voru út voru nítján talsins og hafa þeir nú allir verið sendir í úrvinnslusóttkví, þar sem ekki liggur fyrir niðurstaða úr seinni skimun. Karl Ingi Vilbergsson lögreglustjóri á Vestfjörðum segir í samtali við fréttastofu að viðbragðsaðilar muni fara í sýnatöku á morgun.

Þá mun þeim sem þurfa bjóðast að fara í sóttkví í farsóttarhúsi í Holti í Önundarfirði. Ekki fengust upplýsingar um líðan fólksins að svo stöddu.

Aðstæður á vettvangi voru erfiðar, mikil hálka var á veginum í Skötufirði og lágskýjað. Fjórir vegfarendur sem komu að slysinu náðu fólkinu í landi og veittu fyrstu hjálp á meðan beðið var eftir viðbragðsaðilum.


Tengdar fréttir

Fólk sem að­stoðaði við björgunina í úr­vinnslu­sótt­kví

Fólkið sem kom að beinni björgun eftir að bíll fór í sjóinn í Skötufirði er nú í úrvinnslusóttkví. Þetta staðfestir Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, í samtali við fréttastofu.

Fjölskylda flutt með þyrlu til Reykjavíkur eftir slysið

Þau þrjú sem voru í bílnum sem fór í sjóinn í Skötufirði voru flutt á sjúkrahús í Reykjavík með þyrlum Landhelgisgæslunnar nú eftir hádegi. Komið var með fólkið á Borgarspítalann á öðrum tímanum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×