Innlent

Fá reglu­lega á­bendingar um að grímu­lausum far­þegum sé hleypt um borð

Eiður Þór Árnason skrifar
Grímuskylda hefur verið tekin upp í Strætó. Jón Magnús segir skynsamlegt að fólk noti grímur í aðstæðum þar sem ekki er víst að hægt sé að tryggja fjarlægðarmörk.
Grímuskylda hefur verið tekin upp í Strætó. Jón Magnús segir skynsamlegt að fólk noti grímur í aðstæðum þar sem ekki er víst að hægt sé að tryggja fjarlægðarmörk. Vísir/Vilhelm

Strætó hefur alls borist 151 ábending um ófullnægjandi grímunotkun vagnstjóra og farþega frá 5. október síðastliðnum. Snýr meirihluti ábendinganna að vagnstjórum eða 96 talsins og hefur fjöldi þeirra rétt rúmlega tvöföldast frá því í byrjun nóvember.

Þar af hefur Strætó fengið 53 ábendingar um grímulausa vagnstjóra frá því í október og 43 vegna vagnstjóra sem eru sagðir bera grímuna vitlaust. 55 ábendingar varða grímulausa farþega um borð.

Grímuskylda hefur verið í gildi í vögnum Strætó á höfuðborgarsvæðinu frá því í október í samræmi við gildandi sóttvarnareglur. Nær grímuskyldan bæði til farþega og vagnstjóra.

„Við fáum reglulega einhverjar ábendingar um að það sé verið að hleypa grímulausum farþegum um borð eða þá að vagnstjórinn sé grímulaus. Við þurfum bara að halda áfram að minna fólk á að vera með grímuna og við erum reglulega að minna starfsfólk á það,“ segir Guðmundur H. Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó, í samtali við Vísi.

„Það er auðvitað ekki allt sem ratar þarna inn en þetta gefur okkur ágætis mynd af stöðunni.“

Erfitt fyrir vagnstjóra að fylgjast með farþegum

Nýlega hefur Strætó fengið nokkrar ábendingar um farþega sem taki grímuna niður um borð í vagninum.

„Við viljum árétta að fólk ber ábyrgð á sínum persónulegu sóttvörnum. Vagnstjórar eiga að fylgjast með hvort fólk sé með grímu þegar það kemur um borð en það er ómögulegt fyrir þá að fylgjast almennilega með hvað fólk gerir eftir það.“

Guðmundur segir stjórnendur hvetja farþega til að senda Strætó skilaboð á samfélagsmiðlum eða ábendingu á heimasíðu Strætó ef tilefni er til.

„Við skráum allar ábendingar niður og spyrjum alltaf hvar þetta var og á hvaða leið. Þá getum við fundið út hver var að keyra og getum þá átt samtalið við viðkomandi starfsmann. Við sendum svo reglulega út ábendingar um að halda áfram að sinna sóttvörnum og nota grímuna.“


Tengdar fréttir

45 á­bendingar til með­ferðar vegna grímu­lausra vagn­stjóra

Alls hafa 45 ábendingar sem borist hafa Strætó um að bílstjórar vagna á höfuðborgarsvæðinu hafi ekki með grímur eða noti þær ekki rétt, verið teknar til meðferðar frá því að grímuskylda var tekin upp í strætisvögnum 5. október síðastliðinn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×