Innlent

Umboðsmaður Alþingis vill fá upplýsingar um öll alvarleg atvik hjá frelsissviptum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Umboðsmaður hefur óskað eftir upplýsingum um alvarlegt atvik sem átti sér stað á réttargeðdeild á jóladag.
Umboðsmaður hefur óskað eftir upplýsingum um alvarlegt atvik sem átti sér stað á réttargeðdeild á jóladag. Umboðsmaður Alþingis

Settur umboðsmaður Alþingis hefur óskað eftir því að dómsmálaráðuneytið, heilbrigðisráðuneytið og félagsmálaráðuneytið sjá til þess að stofnanir sem undir þau heyra og hýsa frelsissvipt fólk tilkynni umboðsmanni um alvarleg atvik sem þar verða.

Til alvarlegra atvika teljast dauðsföll, sjálfsvíg, sjálfsvígstilraunir og alvarlega sjálfsskaðandi hegðun.

Frá þessu er greint á vefsvæði umboðsmanns.

„Í bréfi sínu bendir settur umboðsmaður á að það hefði þýðingu, í tengslum við OPCAT-eftirlit umboðsmanns með stöðum þar sem frelsissviptir dvelja og annað frumkvæðiseftirlit hans, að umboðsmaður fengi upplýsingar um slík atvik og hvernig viðkomandi stjórnvöld hefðu brugðist við þeim. Slíkt fyrirkomulag sé viðhaft í nágrannalöndum okkar. Jafnframt áréttar hann að almennri upplýsingagjöf til umboðsmanns um þessi atvik sé ekki á nokkurn hátt ætlað að stíga inn í eða koma í stað rannsóknar lögreglu eða annarra stjórnvalda á atvikum eða innra eftirlits á þeim stað sem um ræðir hverju sinni. Henni væri einkum ætlað að vera innlegg í OPCAT-eftirlitið og þá sem þáttur í að byggja upp og auka við þekkingu á þeim stöðum sem sæta eftirlitinu og eftir atvikum aðrar frumkvæðisathuganir.“

Þá segir að umboðsmaður hafi óskað eftir því að heilbrigðisráðuneytið hlutaðist til um að Landspítalinn láti honum í té almennar upplýsingar um alvarlegt atvik sem átti sér stað á réttargeðdeild á jóladag.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×