Innlent

Kafarar sendir að flakinu í fyrramálið til að koma í veg fyrir olíuleka

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar

Viðbragðsaðilar vakta nú fóðurpramma Laxa fiskeldisstöðvar sem sökk í Reyðarfirði í nótt með tíu þúsund lítra af díeselolíu. Kafarar verða sendir að flakinu til að reyna að loka fyrir olíuleka í fyrramálið. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins segir þetta mikið tjón og í framhaldinu verði farið yfir alla verkferla.

Fóðurpramminn sem sér um fóðrun á 16 laxeldiskvíum fyrirtækisins Laxa sökk í aftakaveðri á Reyðarfirði í nótt.

Jens Garðar Helgason framkvæmdastjóri Laxa fiskeldis segir viðbragðsaðila á svæðinu tilbúna að aðhafast komi leki að flakinu. 

„Varðskipið Þór er á svæðinu og við erum að fylgjast með.  Það er allur búnaður til taks ef það fer að leka en í fyrramálið munu kafarar kafa niður að prammanum til að loka öllum loftgötum til að hindra engin olía leiki úr honum.

Jens Garðar Helgason framkvæmdastjóri Laxa fiskeldis segir viðbragðsaðila á svæðinu tilbúna að aðhafast komi leki að flakinu.Vísir

Hann segist ekki vita hvort að slíkt óhapp hafi orðið áður hér á landi. 

„Við munum af sjálfsögðu draga lærdóm af þessu og sjá hvað þarf að gera betur og hvað þarf að varast,“ segir Jens en pramminn sökk í aftakaveðri. 

Jens er vongóður um að lítill sem enginn leki sé frá flakinu. 

„Það er mjög takmörkurð hætta og fisknum stendur alls engin hætta af þessu,“ segir hann. 
Fleiri fréttir

Sjá meira


×