Innlent

Fær ekki að flytja inn American Pit Bull Terrier

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Óheimilt er að flytja hunda af tegundinni American Put Bull Terrier hingað til lands.
Óheimilt er að flytja hunda af tegundinni American Put Bull Terrier hingað til lands. flickr/geoggirl

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur staðfest ákvörðun Matvælastofnunar um að synja einstaklingi um undanþágu frá banni við innflutningi á hundi af tegundinni American Pit Bull Terrier.

Úrskurður ráðuneytisins er birtur á vef Stjórnarráðsins. Þar kemur fram að Matvælastofnun hafi hafnað því að veita undanþágu frá banninu, sem er að finna í lögum um innflutning dýra. Taldi stofnunin sig ekki hafa heimild til að víkja frá ákvæðum laganna um bann við ákveðnum hundategundum.

Vísaði Matvælastofnun einnig til þess að löggjöf og framkvæmd í þessum málum hér á landi byggi á því sjónarmiði að stemma stigu við innflutningi hunda af tegundum sem taldar séu sérlega hættulegar ef ekki er rétt staðið að uppeldi og umönnun viðkomandi hunda. Þá sagði Matvælastofnun engin fordæmi fyrir því að veita undanþágu frá banninu.

Sagði hundinn veita stuðning vegna veikinda

Sá sem kærði ákvörðun Matvælastofnunar og vildi fá að flytja hundinn inn byggði undanþágubeiðnina á því að umræddur hundur, sem eins og áður sagði er af tegundinni American Pit Bull Terrier, veiti honum mikinn stuðning vegna andlegra og líkamlegra veikinda.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið staðfesti svo synjun Matvælastofnunar á undanþágubeiðninni. Vísað var til þess að kröfur vegna innflutnings dýra væru strangar og að meginreglan væri sú að innflutningur dýra hingað til lands sé bannaður og að undantekningar við því banni skyldi túlka þröngt.

„Með vísan til umsagnar Matvælastofnunar telur ráðuneytið að hætta geti stafað af innflutningi af hundi af tegundinni American Pit Bull Terrier og sé því óheimilt að veita undanþágu til innflutnings á hundi kæranda, sbr. 3. mgr. 4. gr. a laganna. Auk þess er sérstaklega kveðið á um í 1. tl. f. liðar 14 gr. reglugerðar nr. 200/2020, um innflutning hunda og katta, að óheimilt að flytja inn hunda af umræddri tegund,“ segir í úrskurði ráðuneytisins þar sem ákvörðun Matvælastofnunar var staðfest.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.