Innlent

Starfsmenn Landspítala nýkomnir frá Ítalíu á leið í sóttkví

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Starfsfólk sem kom frá Ítalíu fyrir 29. febrúar og hefur ekki fundið fyrir einkennum getur áfram unnið.
Starfsfólk sem kom frá Ítalíu fyrir 29. febrúar og hefur ekki fundið fyrir einkennum getur áfram unnið. Vísir/Vilhelm

Starfsmenn Landspítala sem hafa komið til Íslands síðan á föstudag eftir veru á Ítalíu eiga að fara í fjórtán daga heimasóttkví frá heimkomu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá farsóttanefnd Landspítalans. 

Tilefnið er að nú hefur öll Ítalía verið skilgreind sem áhættusvæði vegna kórónuveirunnar sem veldur Covid-19 sjúkdómnum. Áður takmarkaðist áhættusvæðið við fjögur héruð á Norður-Ítalíu.

Þrjú smit hafa greinst hér á landi og eiga þau þrjú sem smitast hafa sameiginlegt að hafa dvalið á Ítalíu. Fyrsta smitið var greint á föstudag og tvö til viðbótar í gær.

Starfsmenn Landspítala sem komu frá Ítalíu á tímabilinu 22. febrúar til 28. feb´ruar og hafa verið í vinnu mega vinna áfram ef þeir eru einkennalausir. 

Starfsmenn þurfa að fylgjast með einkennum sem geta bent til sjúkdómsins. Þau eru hiti, hósti, mæði, hálssærindi og skyndileg almenn vanlíðan svo sem höfuðverkur, slappleiki og beinverkir.

Ef starfsmaður í heimasóttkví fær einkenni sem geta bent til sjúkdómsins skal hann hringja í 1700 eða sína heilsugæslustöð. Ef starfsmaður við vinnu greinist með sjúkdóminn á hann að láta yfirmann vita sem tilkynnir um tilfellið til sýkingavarnadeildar. 
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.