Innlent

Hvað breytist í dag?

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Margir verða eflaust fegnir að komast í klippingu.
Margir verða eflaust fegnir að komast í klippingu. Vísir/vilhelm

Samkomubanni vegna kórónuveirufaraldursins hefur verið aflétt að hluta í dag, 4. maí. Líkt og áður hefur verið auglýst verða fjöldamörk samkomubanns hækkuð úr 20 í 50 manns frá og með deginum í dag, skólahald í leik- og grunnskólum hefst með hefðbundnum hætti og ýmis þjónusta býðst landsmönnum á ný. 

Enn verður bið á því að sundlaugar, líkamsræktarstöðvar og skemmtistaðir opni. Almenningur mun þó líklega geta lagt leið sína á umrædda staði í kringum næstu mánaðamót, þegar annað stig tilslakana tekur gildi. Slíkt hefur þó ekki verið tilkynnt formlega enn.

Fyrsta skrefið í tilslökunum á veiruaðgerðum yfirvalda var kynnt um miðjan apríl. Lögð hefur verið áhersla á að samkomubanni og öðrum aðgerðum verði ekki aflétt of hratt. Þá verður slakað á öllum takmörkunum í skrefum, sem endurskoðuð verða með þriggja til fjögurra vikna millibili. 

Helstu breytingar sem verða í dag, 4. maí:

  • Fjöldamörk samkomubanns miðast við 50 einstaklinga í stað 20 áður. Reglur um tveggja metra fjarlægð haldast óbreyttar.
  • Skólastarf í leik- og grunnskólum verður með eðlilegum hætti.
  • Í framhalds- og háskólum gildir meginreglan um hámark 50 einstaklinga í sama rými. Þannig verða byggingar Háskóla Íslands, þar á meðal Þjóðarbókhlaðan, opnaðar að nýju í dag.

Ýmis þjónusta: 

  • Hárgreiðslustofur, nuddstofur, sjúkraþjálfun, snyrtistofur, söfn, kvikmyndahús og sambærileg starfsemi geta opnað á ný en halda skal tveggja metra fjarlægð milli viðskiptavina eins og kostur er.
  • Undanþágur verða veittar frá tveggja metra reglu vegna ökukennslu, flugkennslu og aksturs þjónustubifreiða, að því gefnu að fyllsta hreinlætis sé gætt. 
  • Strætó fær einnig undanþágu frá fjarlægðartakmörkunum, þ.e. tveggja metra reglunni, að því leyti að hámarksfjöldi fólks í vögnum verður miðaður við þrjátíu manns.
  • Þá er viðbúið að ýmsar verslanir og veitingastaðir opni að nýju með rýmri fjöldatakmörkunum. Þannig hefur til að mynda IKEA, sem lokað hefur verið síðan í mars, boðað opnun í dag.

Heilbrigðisþjónusta: 

  • Valkvæðar skurðaðgerðir og ífarandi rannsóknir verða heimilaðar og ýmsum öðrum takmörkunum á heilbrigðisþjónustu aflétt. Sjá nánar hér.
  • Tannlækningar verða einnig heimilar.

Heimsóknir á dvalar- og hjúkrunarheimilum:

  • Heimsóknir verða leyfðar inn á hjúkrunarheimili frá og með deginum í dag samkvæmt nánari reglum hvers heimilis en lagt er til að aðeins nánasta aðstandanda verði leyft að koma inn á heimilið fyrstu tvær vikurnar frá því að tilslakanir hefjast og lengur ef svo ber undir. Sjá nánar hér.

Þá verður skipulagt íþróttastarf barna á leik- og grunnskólaaldri heimilt utandyra með eftirfarandi takmörkunum:

  • Ekki fleiri en 50 einstaklingar saman í hóp.
  • Halda skal tveggja metra fjarlægð eftir því sem það er unnt, einkum hjá eldri börnum.

Annað skipulagt íþróttastarf er heimilt utandyra með eftirfarandi takmörkunum:

  • Ekki fleiri en fjórir einstaklingar æfa eða leika saman.
  • Snertingar eru óheimilar og halda skal tveimur metrum á milli einstaklinga.
  • Notkun á sameiginlegum búnaði skal haldið í lágmarki en annars skal sótthreinsa hann á milli notkunar.

Nokkur atriði sem haldast óbreytt:

  • Undanþágur fyrir efnahagslega mikilvæg fyrirtæki verða óbreyttar.
  • Líkt og hingað til verður heimilt að taka á móti 100 einstaklingum í matvöruverslunum og lyfjaverslunum hverju sinni að uppfylltum tilteknum skilyrðum.
  • Sundlaugar og líkamsræktarstöðvar verða áfram lokaðar.
  • Reglur um skemmtistaði, krár, spilasali og svipaða starfsemi verða óbreyttar og slíkir staðir því áfram lokaðir.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×