Innlent

Tveir Íslendingar handteknir í Madrid fyrir kókaínsmygl

Valur Grettisson skrifar
Alþjóðaflugvöllurinn í Madrid.
Alþjóðaflugvöllurinn í Madrid.

Tveir íslendingar um tvítugt voru handteknir í Madrid eftir að þeir reyndu að smygla inn Kókaíni frá Perú. Samkvæmt ræðismanninum í Madrid, Francisco Javier Pérez-Bustamante de Monasterio, þá sitja þeir í varðhaldi í fangelsi um 30 kílómetra fyrir utan borgina.

Íslendingarnir, kona og karlmaður, voru handtekin þann 17. desember eftir að tollgæslan stöðvaði þau á alþjóðaflugvellinum Barajas í Madrid. Þau voru að koma frá Perú og reyndust vera með nokkurt magn af kókaíni á sér. Ekki er vitað hversu mikið magn af kókaíni þau voru með.

„Ég er búinn að heimsækja þá," segir Monasterio sem hefur að auki látið sendiráðsskrifstofuna í París og utanríkisráðuneytið á Íslandi vita um Íslendingana tvo. Monasterio segir ekki ljóst hversu miklu magni þeir reyndu að smygla til landsins. Spurður hvernig þeim líði á líkama og sál segir hann þá bera sig vel.

„En það er ekki góð hugmynd að smygla fíkniefnum til Spánar því þar falla mjög þungir dómar vegna slíkra mála," segir Monasterio en sjálfur er hann menntaður lögfræðingur. Ef Íslendingarnir reyndu að smygla kílói af kókaíni til landsins eða meira þá gætu þeir átt yfir höfði sér allt að tíu ára fangelsi.

Monasterio áréttar að það sé afar sjaldgæft að Íslendingar séu handteknir vegna fíkniefnasmygls þar í landi.

„En þetta er alveg hrikalegt og þá sérstaklega fyrir svona ungt fólk, afleiðingarnar eru alveg hryllilegar" segir Monasterio sem hefur mikla samúð með parinu.

Spurður hvort það sé möguleiki á því að þeim verði sleppt úr varðhaldi á næstunni svarar hann því til að það sé ómögulegt að segja.

Ekki náðist í alþjóðadeild ríkislögreglustjórans né utanríkisráðuneytið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×