Enski boltinn

Guðjón dýrkaður í Crewe

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Stuðningsmenn Crewe eru kampakátir með störf Guðjóns Þórðarsonar eða Thordy eins og þeir kalla hann.
Stuðningsmenn Crewe eru kampakátir með störf Guðjóns Þórðarsonar eða Thordy eins og þeir kalla hann.

Ef marka má umræðu stuðningsmanna enska C-deildarfélagsins Crewe Alexandra í netheimum er knattspyrnustjórinn Guðjón Þórðarson í miklu uppáhaldi hjá þeim.

Guðjón tók við stöðu knattspyrnustjóra hjá liðinu í lok desember síðastliðnum en liðinu hefur gengið afleitlega á leiktíðinni. Nú horfir hins vegar til betri vegar eftir að Guðjón leiddi sína menn til sigurs í þremur leikjum í röð.

Viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa á hinum ýmsum spjallsíðum tengdum félaginu. Eins og sjá má hér og hér eru netverjar á því að félagið þurfi að gera langtímasamning við Guðjón hið fyrsta enda sé hann rétti maðurinn til að leiða félagið úr þeim ógöngum sem það er í.

Einn stuðningsmaðurinn hefur gengið svo langt að framleiða breska fána fyrir stuðnigsmenn með "Gudjon's Red Army" skrifað á fánann líkt og þeim sem má sjá á meðfylgjandi mynd.

En eins og gengur og gerist er skammt á milli hláturs og gráturs í heimi knattspyrnunnar. Áður en til sigurleikjagöngunnar kom voru nokkrir stuðningsmenn Crewe efins um að Guðjón væri rétti maðurinn fyrir starfið. Sumir gengu svo langt að biðja um að hann yrði rekinn og það hið fyrsta, eins og sjá má hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×