Innlent

Fjórtán misst félagslegar íbúðir

Fjórtán leigjendum félagslegra íbúða Reykjavíkurborgar hefur verið sagt upp leigusamningi á árinu og gert að flytja vegna brota á reglum Félagsbústaða. Fjórir þeirra hafa verið bornir út með lögregluvaldi samkvæmt Sigurði Friðrikssyni framkvæmdastjóra Félagsbústaða.Ellý Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri ráðgjafarsviðs Félagsþjónustunnar í Reykjavík, segir þá sem bornir séu út úr félagslegum íbúðum í flestum tilvikum hafa rétt á sérstökum húsaleigubótum. Þeir geti því leitað út á almennan leigumarkað. Ellý segir ástæðu fólks sem flosni úr félagslegum íbúðum margvíslegar. Áfangaheimili og gistiskýli séu kostur sem nýtist sumum. "Þau eru fyrst og fremst fyrir fólk sem hefur misst fótanna, meðal annars vegna óreglu. Við höfum á síðustu tveimur árum opnað tvö heimili; eitt áfangaheimili og eitt fyrir heimilislausa. Þau eru fyrir 16 manns. Við erum með rekstur áfangaheimilis fyrir 19 manns og til viðbótar erum við með gistiskýli og búsetu fyrir geðfatlaða og tökum þátt í rekstri á vernduðum heimilum. Þannig að ýmis úrræði eru í boði þó biðlisti sé því miður á flest þeirra," segir Ellý. Útburður sé alltaf síðasta úrræði brjóti fólk reglur Félagsbústaða. Ellý bendir á að félagsþjónustan sé alltaf reiðubúin að veita fólki í húsnæðisvanda ráðgjöf. >



Fleiri fréttir

Sjá meira


×