Innlent

Sægreifar Evrópu fjölmenntu

Mikið fjölmenni var á ráðstefnu Íslandsbanka um sjávarútveg á Akureyri í gær. Fulltrúar fjölmargra stórra fyrirtækja voru meðal gesta og hlýddu meðal annars á ræðu utanríkisráðherra þar sem hann fann fiskveiðistefnu Evrópusambandsins allt til foráttu. Í ræðu sinni fjallaði Halldór einnig um hindranir í viðskiptum með sjávarfang. Að loknum fundi sagði Halldór að Íslendingar legðu áherslu á að afnema slíkar hindranir. "Það hefur verið lagt hart að okkur að láta eftir aðgang að auðlindum gegn aðgangi að mörkuðum. Við höfum staðið mjög hart gegn því en þó neyddust menn til þess á sínum tíma að láta Evrópusambandið fá nokkur réttindi til að fá betri aðgang að þeirra mörkuðum en við höfum þó ekki fengið frjálsan aðgang að öllum þeirra markaði," segir Halldór. Meðal gesta á ráðstefnunni var Kjell Inge Rökke, einn ríkasti maður Noregs. Rökke segir í samtali við Fréttablaðið að íslensk útgerðarfyrirtæki séu meðal þeirra best reknu í heiminum. Hann tók einnig undir orð Halldórs og segir að pólitík sé mikill áhrifavaldur í rekstri sjávarútvegsfyrirtækja í heiminum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×