Innlent

Skilorðsbundið fangelsi og sekt fyrir skattalagabrot

MYND/Valli

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag karlmann í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi og til að greiða 21,5 milljónir króna í sekt fyrir að brjóta lög um virðisaukaskatt og tekjuskatt.

Maðurinn starfaði sjálfstætt sem húsamálari og lét hann undir höfuð leggjast að færa bókhald og skila virðisaukaskattsskýrslum vegna áranna 1999-2002 og skattframtölum fyrir gjaldaárin 2000 til 2002 vegna starfsemi sinnar. Greiddi hann ekki 4,2 milljónir í virðisaukaskatt og nærri 6,5 milljónir króna í útsvar vegna þessa.

Maðurinn játaði hluta brota sinna en bar við að hann hefði látið annan mann um framtalsgerð fyrir sig. Dómnum þótti sú viðbára ekki tæk og sakfelldi hann fyrir öll brotin og dæmdi í skilorðsbundið fangelsi og sektaði. Greiði hann ekki sektina innan fjögurra vikna má hann dúsa í fangelsi í 300 daga, eða rétt um tíu mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×