Innlent

Ástráður sækir um við Landsrétt í þriðja sinn

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Ástráður Haraldsson.
Ástráður Haraldsson. Vísir

Alls sóttu átta manns um embætti dómara við Landsrétt. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins. Meðal þeirra er Ástráður Haraldsson, dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur. Þetta er í þriðja sinn sem hann sækir um stöðu dómara við réttinn.

Ástráður er einn þeirra sem metinn var hæfastur af hæfnisnefnd þegar Landsrétti var komið á fót. Sigríður Á. Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra, hafði hann hins vegar ekki inni á lista yfir þá dómara sem að lokum voru settir í embætti.

Ástráði voru þá dæmdar 700 þúsund krónur í miskabætur þegar Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að dómsmálaráðherra hefði brotið lög með því að endurraða lista yfir hæfustu umsækjendur.

Ástráður sótti síðan aftur um stöðu dómara við réttinn í maí á síðasta ári, þegar Vilhjálmur H. Vilhjálmsson sagði starfi sínu lausu. Eiríkur Jónsson var í það skiptið ráðinn í embættið.

Dómsmálaráðuneytið auglýsti þann 20. desember laus til setningar tvö embætti dómara við réttinn. Umsóknarfrestur rann út 6. janúar síðastliðinn.

Sett verður í embættin eftir að dómnefnd um hæfni umsækjenda hefur lokið störfum sínum í tengslum við setningu í embættin.

Eftirfarandi sóttu um embættin:

Ása Ólafsdóttir, prófessor

Ástráður Haraldsson, héraðsdómari

Björn L. Bergsson, skrifstofustjóri Landsréttar

Bogi Hjálmtýsson, héraðsdómari

Hildur Briem, héraðsdómari

Ingibjörg Þorsteinsdóttir, héraðsdómari

Ragnheiður Snorradóttir, héraðsdómari

Sandra Baldvinsdóttir, héraðsdómari
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.