Innlent

Hlunnfarin um hlunnindajarðir

Hvað er prestssetur og hvað er ekki prestssetur? Eru það jarðir sem prestar bjuggu á árið 1993 eða allar jarðeignir sem hafa verið notaðar sem prestssetur frá árinu 1907? Þetta er kjarni málsins í deilu ríkisins og Þjóðkirkjunnar um eignarréttarstöðu prestssetra sem hefur staðið yfir síðan 1997 og enn sér ekki fyrir endann á. Kirkjan vill fá þrjá milljarða frá ríkinu fyrir prestssetrin en ríkið er eingöngu tilbúið til að reiða fram 150 milljónir. Ólíkar skilgreiningar Upphaf málsins má rekja til ársins 1907 þegar ríki og kirkja gera með sér samkomulag um að ríkið taki til sín og sjái um jarðeignir sem áður voru í eigu kirkjunnar gegn því að greiða laun presta. Prestssetrin voru hins vegar undanskilin í samkomulaginu. Níutíu árum síðar er samningurinn festur í sessi þegar kirkjujarðir að frátöldum prestssetrum verða eign ríkisins. Þá létu samningamenn kirkjunnar bóka að síðar yrði fjallað um prestssetrin og virðast þeir hafa gengið út frá að samkomulagið frá 1907 lægi til grundvallar hvaða jarðir og fasteignir flokkuðust undir prestssetur. Árið 2002 gerir ríkið kirkjunni tilboð um að hún fái til eignar þau 87 prestssetur sem voru í notkun árið 1994 þegar prestssetrasjóður er stofnsettur og 150 milljónir króna að auki. Með þessu yrði um að ræða fullnaðaruppgjör vegna setranna. Að þessu vildu kirkjunnar menn ekki ganga heldur kröfðust þriggja milljarða króna sem þeir töldu verðmæti þeirra jarða sem voru prestssetur 1907 og kirkjan hefði engar bætur fengið fyrir. Mikil verðmæti í húfi Árið 1907 voru prestssetur og jarðeignir sem þeim fylgdu, talsvert fleiri en nú. Síðustu áratugi hafa margar þessara jarða verið seldar án þess að stjórn kirkjunnar hafi nokkuð um það haft að segja. Bjarni Kr. Grímsson, formaður prestssetrasjóðs, segir að kirkjan hafi ekki gert athugasemdir við sölu á prestssetrum þegar eitthvað hefur komið í staðinn en þegar því er ekki að skipta horfir málið öðruvísi við. "Við getum tekið dæmi frá 1992 þegar ríkið seldi Garðabæ tólf jarðir úr eigu Garðakirkju fyrir 49 milljónir," segir hann, en árið 1907 voru Garðar prestssetur. "Hið sama má segja um Hvanneyri á Siglufirði og Borg í Borgarfirði sem áttu stóran hluta landsins sem Siglufjarðarbær og Borgarnes standa nú á. Hér eru milljarðaverðmæti í húfi sem ekkert hefur komið í staðinn fyrir" segir Bjarni. Hvað hangir á spýtunni? Enda þótt samkomulag sé ekki í sjónmáli þá binda kirkjunnar menn vonir við það að milljarðarnir þrír fáist greiddir. Bjarni segir að ýmsar leiðir séu í stöðunni, til dæmis eingreiðsla eða að ríkið skuldbindi sig á svipaðan hátt og 1997 þegar það bauðst til að greiða laun 139 presta um ókomna tíð. Þannig kemur til greina að prestum yrði einfaldlega fjölgað og laun þeirra greidd með þeim fjármunum sem fengjust fyrir prestssetrin. Að sjálfsögðu stendur ríkisvaldið á því fastar en fótunum að ekki sé hægt að miða við fjölda prestssetra frá því 1907 heldur hafi allir gengið út frá því á sínum tíma að miða ætti við 1993. Þetta kom til dæmis skýrt fram í ræðu Björns Bjarnasonar kirkjumálaráðherra á kirkjuþingi í gær. En hvað felst þá í 150 milljónunum sem ríkið hefur þegar greitt Þjóðkirkjunni? "Ríkið er bara að viðurkenna að það hafi staðið sig slælega í að halda prestssetrunum við án þess að viðurkenna jarðirnar sem slíkar," segir Bjarni. Höfuðból og hlunnindajarðir Annars getur kirkjan vart talist á flæðiskeri stödd með þau 85 prestssetur sem hún á í dag. Sum þeirra eru í hópi mestu kostajarða landsins og njóta margir prestar góðs af hlunnindum á borð við laxveiðirétt og dúntekju sem þeir geta haldið fyrir sig. Verðmæti jarðeignanna er 661 milljón króna samkvæmt fasteignamati og rúmir tveir milljarðar í brunabótamati og þá eru ekki taldar með hjáleigur sem sumum jörðunum fylgja. Á hinn bóginn gefa þessar staðreyndir til kynna hve mikið er í húfi fyrir kirkjuna. Því er varla við að búast að slegið verði af kröfugerðinni um sinn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×