Innlent

Tryggingastríð hafið

Tryggingastríð er hafið milli banka og tryggingafélaga. Hvor aðilinn um sig lofar viðskiptavinum bestu kjörum, öryggi og umhyggju. Það eru aðeins Landsbankinn og tryggingafélagið Alliance sem eru komin fram á vígvöllinn, eins og málið stendur nú, en búast má við að fleiri aðilar séu að vígbúast. Landsbankinn hóf þetta stríð með því að auglýsa það sem kallað er Launavernd. Það er sérstakur launareikningur sem felur í sér ýmsar tryggingar. Landsbankinn kynnir þetta svo, að gegn hóflegu mánaðargjaldi fái viðskiptavinurinn launavernd sem tryggi honum og fjölskyldu hans sjötíu prósent af launum í tvö ár, ef hann fær alvarlegan sjúkdóm, sjötíu prósent af launum í sjö ár, falli viðkomandi frá, og eingreiðslu ef barn fær alvarlegan sjúkdóm. Í dag svarar svo tryggingafélagið Alliance með heilsíðu auglýsingu þar sem fólk er hvatt til þess að láta bankann ekki blekkja sig. Í auglýsingunni segir að tilboð bankans hljómi vel í fyrstu. Hins vegar hafi trygging sem sé keypt fyrir hluta af lífeyrissparnaði ýmsa ókosti, til dæmis séu dánarbætur þá skattlagðar sem laun en séu annars undanþegnar skatti. Neytendur eru því hvattir til þess að tala við Alliance og kynna sér allar hliðar málsins áður en skrifað sé undir hjá „brosmildum bankamanni“ eins og það er orðað.  



Fleiri fréttir

Sjá meira


×