Innlent

Kópavogsbæ að kenna

Aðstoðarforstjóri Orkuveitu Reykjavíkur segir að það sé stjórnendum Kópavogsbæjar sjálfum að kenna að bærinn skuli borga hærra verð fyrir vatn frá Orkuveitunni en önnur bæjarfélög. Það hefur kostað bæinn yfir sjötíu milljónir króna. Ásgeir Margeirsson, aðstoðarforstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, segir að það sé alveg rétt að Kópavogur borgi mun hærra verð fyrir kalt vatn frá Orkuveitunni en önnur nágranna-bæjarfélög. Það sé þó ekki orkuveitunni að kenna. Árið 1997 hafi embættismenn Kópavogsbæjar undirritað samning um vatnskaup sem stjórnendur bæjarins hafi ekki viljað sætta sig við. Þeir hafi því beðið um gerðardóm í málinu og niðurstaðan þar hafi verið umtalsvert hærra verð en búið var að semja um. Það verð hafi svo farið í yfirmat, og eitthvað lækkað, en Kópavogur samt sem áður greitt mun hærra verð. Ásgeir segir að frá árinu 1997 til 2003 hefði Kópavogur greitt um sjötíu milljónum króna meira fyrir vatnið en ef farið hefði verið eftir samningunum sem embættismennirnir undirrituðu. Sigurður segir að Kópavogsbær hefði ekki beðið um neinn fund til þess að semja um nýtt verð en ef slík ósk kæmi frá viðskiptavini, yrði að sjálfsögðu orðið við henni. Myndin er af Ásgeiri Margeirssyni, aðstoðarforstjóra Orkuveitu Reykjavíkur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×