Sport

Aflýstu Wimbledon risamótinu í tennis

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Novak Djokovic vann Wimbledon mótið í fyrra og er hér með bikarinn.
Novak Djokovic vann Wimbledon mótið í fyrra og er hér með bikarinn. Getty/Paul Popper

Wimbledon risamótið í tennis fer ekki fram í ár en tekin var ákvörðun um það í dag að aflýsa mótinu.

Wimbledon risamótið í tennis er nýjasta stóra íþróttamótið í heiminum sem fer ekki fram vegna útbreiðslu kórónuveirunnar.

Forráðamenn Wimbledon mótsins ætla ekki að reyna fresta mótinu fram á haustið heldur var tekin sú ákvörðun að aflýsa því alveg. Það fer því ekki fram fyrr en á árinu 2021.

Wimbledon mótið hefur farið fram á hverju ári síðan í seinni heimsstyrjöldinni en þá var því síðast aflýst.

Mótið átti að fara fram frá 29. júní til 12. júlí í sumar.

Evrópumótið í knattspyrnu og Ólympíuleikarnir áttu líka að fara fram í sumar en báðum mótum hefur verið frestað fram á næsta ár.

Wimbledon mótið er annað risamót ársins í tennis sem fer ekki fram á sínum tíma en áður hafði verið tekin ákvörðun um að færa opna franska meistaramótið frá maí fram í september.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×