Lífið

Sendur í sóttkví á lokadegi sóttkvíar: „Þetta er ekki aprílgabb“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Sveinn Birkir getur unnið að heiman eins og sjá má hér á myndinni af heimaskrifstofunni.
Sveinn Birkir getur unnið að heiman eins og sjá má hér á myndinni af heimaskrifstofunni.

„Ég er á síðasta degi í sóttkví í dag. 14 dagar að klárast. Fæ símtal frá rakningarteyminu: „Þú hefur verið útsettur fyrir smiti aftur. Til hamingju, þú hefur unnið aðra 14 daga í sóttkví“ - Þetta er ekki aprílgabb.“

Þetta skrifar Sveinn Birkir Björnsson, forstöðumaður Íslandsstofu, í færslu á Twitter og greinir frá því að hann verði hátt í einn mánuð í sóttkví. Lífið heyrði honum hljóðið.

„Konan mín greindist nokkuð snemma og við höfum öll fjölskyldan verið í einangrun hér heima. Ég og börnin vorum neikvæð en svo voru börnin farin að sýna einkenni og ég fór því með þau í skimun og þá voru þau bæði orðin jákvæð.“

Hann segir að niðurstöðurnar hafi legið fyrir í gær og þá taka við aðrar tvær vikur af sóttkví hjá Sveini.

„Ég fór líka í próf og var neikvæður en það að þau séu orðin jákvæð þá núllast bara út mín sóttkví. Það er bara 7, 9, 13 hvort ég fái þessa veiru. En maður hefur heyrt sögur að einn eða fleiri virðast bara sleppa við þetta. Þetta voru ákveðin vonbrigði að fá þessar fréttir á síðasta degi. Ég hefði getað farið og gert einhvern óskunda af mér á morgun en það verður ekki úr því úr þessu,“ segir Sveinn. Eiginkona hans var talsvert veik til að byrja með en er á batavegi. Börnin tvö eru í raun aðeins með flensu og hefur hann engar áhyggjur.“

Sveinn er búinn að reikna dæmið.

„Mér reiknast svo til að þegar sóttkví tvö lýkur verð ég búinn að vera í sóttkví í um tíu prósent af árinu 2020. Ég verð kominn í þrjátíu daga og vantar sex daga til að ná tíu prósentunum,“ segir Sveinn.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.