Innlent

Á­fram í gæslu­varð­haldi grunaður um að hafa orðið móður sinni að bana

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Héraðsdómur Reykjaness kvað upp úr úrskurð um gæsluvarðhald yfir manninum til 15. maí.
Héraðsdómur Reykjaness kvað upp úr úrskurð um gæsluvarðhald yfir manninum til 15. maí. Vísir/Vilhelm

Karlmaður um þrítugt, sem grunaður er um að hafa orðið móður sinni að bana í heimahúsi í Hafnarfirði í byrjun mánaðarins, hefur verið úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald til 15. maí.

Þetta segir Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við Vísi en fyrst var greint frá á vef Ríkisútvarpsins.

Gæsluvarðhald yfir manninum rann út síðastliðinn föstudag. Héraðsdómur Reykjaness úrskurðaði manninn í fjögurra vikna varðhald á grundvelli almannahagsmuna en aðspurður kveðst Margeir ekki vita til þess að maðurinn hafi kært þann úrskurð til Landsréttar.

Líkt og greint hefur verið frá var lögreglan kölluð að íbúðarhúsi í Hafnarfirði um klukkan hálftvö aðfaranótt 6. apríl.

Kona á sextugsaldri fannst látin í húsinu og voru tveir menn, annar um þrítugt og hinn á sextugsaldri, handteknir. Eldri maðurinn var látinn laus en sá yngri, sonur konunnar, úrskurðaður í gæsluvarðhald. Banamein móður hans er talið vera hnífstunga.

Greint var frá því í kvöldfréttum Stöðvar 2 fyrr í mánuðinum að hinn grunaði eigi við geð- og fíknivanda að stríða. Hann hafði búið hjá móður sinni og stjúpföður um tíma.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×