Innlent

Stefán Hilmarsson fékk veiruna líklega í skíðaferð á Ítalíu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Stefán Hilmarsson, tónlistarmaður.
Stefán Hilmarsson, tónlistarmaður. Aðsend

Tónlistarmaðurinn Stefán Hilmarsson er smitaður af kórónuveirunni og telur líklegast að hann hafi fengið hana í skíðaferð í Selva á Ítalíu. Þessu greinir hann frá í viðtali við sunnudagsblað Morgunblaðsins í dag.

Stefán fór í ferðina ásamt eiginkonu og sonum hinn 28. febrúar og sneri heim viku síðar, um 6. mars. Svæðið var þá ekki orðið að skilgreindu hættusvæði með tilliti til smithættu en Stefán telur að það hafi breyst strax fyrsta morgun ferðarinnar.

Hann lýsir því að hann hafi verið hress alla ferðina og ekki byrjað að finna fyrir einkennum fyrr en eftir að þau fjölskyldan komu heim – raunar þegar hann var nýbúinn að taka upp úr töskunum. Einkennin hafi verið nokkuð væg; hiti lítill sem enginn, nokkur þyngsli fyrir brjósti og kvef. Þá gerir Stefán ráð fyrir að einangrun ljúki í næstu viku.

Framan af mátti rekja öll kórónuveirusmit hér á landi til skíðaferða Íslendinga í Ölpunum. Svæði á Norður-Ítalíu og í Austurríki voru fljótlega skilgreind sem hættusvæði. Nú gildir slík skilgreining þó um öll lönd og þurfa því allir sem snúa heim til Íslands að utan að fara í tveggja vikna sóttkví.

Viðtal Morgunblaðsins við Stefán Hilmarsson.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×