Innlent

Allar flug­leiðir til landsins gætu lokast næstu mánaða­mót

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra. Vísir/Vilhelm

Utanríkisráðherra hvetur Íslendinga erlendis til að snúa heim strax vegna þess að um næstu mánaðamót gætu allar flugleiðir hafa lokast vegna kórónuveirunnar. Þetta kemur fram í Facebook-færslu ráðherra sem birt var í gærmorgun.

„Nú þegar eru flugsamgöngur afar takmarkaðar. Þeir Íslendingar sem hyggja á heimkomu þurfa að snúa heim strax, skrá sig í grunn borgaraþjónustunnar og hafa beint samband ef þeir verða strandaglópar. Um mánaðamótin gætu allar flugleiðir hafa lokast,“ skrifar Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra á Facebook-síðu sinni.

Þá kvað hann símafund með utanríkisráðherrum hinna Norðurlanda sem haldinn var á föstudag hafa gengið vel. Þar hafi verið lýst yfir sérstakri ánægju með samkomulag sem tekist hefði milli ríkjanna um enn frekara samstarf um borgaraþjónustu til að koma þeim Norðurlandabúum til aðstoðar sem eiga á hættu að verða strandaglópar.

Eins og áður segir hvetur ráðherra Íslendinga erlendis til að hafa samband við borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins. Mikið hafi mætt á henni undanfarnar vikur.

„Borgaraþjónustan veitir Íslendingum vernd og aðstoð í neyðartilfellum erlendis og er ein af grunnstoðum utanríkisþjónustunnar. Frá því um síðustu helgi hefur borgaraþjónusta utanríkisþjónustunnar svarað um 2 þúsund erindum og miðlað upplýsingum til rúmlega 9 þúsund manns sem skráðir eru í gagnagrunn borgaraþjónustunnar sem fór í loftið 25. febrúar vegna COVID-19.“


Tengdar fréttir

Flestum flugferðum aflýst og sárafáir ferðamenn að koma

Sárafáir ferðamenn koma til landsins þessa dagana og segir ferðamálastjóri fjölda þeirra sem fara um Leifsstöð vera allt niður í fjórðung af því sem áður var. Hann vonar að landsmönnum sem ferðast innanlands fjölgi í sumar.

Tæplega 3.000 Íslendingar komust heim frá Spáni

Tæplega 3.000 Íslendingar sem voru í ferðum á Spáni vegum þriggja ferðaskrifstofa komu fyrr heim vegna kórónuveirufaraldursins. Síðasta beina flugið frá Spáni er á morgun. 

Ísland tekur þátt í ferðabanni ESB

Ísland mun taka þátt í ferðabanni ásamt öðrum Schengen ríkjum. Þetta segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×