Innlent

Þrír starfsmenn Alþingis smitaðir af kórónuveirunni

Sylvía Hall skrifar
Allir starfsmennirnir eru með starfstöð í Skúlahúsi við Kirkjustræti. Því er áætlað að smithættan sé bundin við það hús en ekki Alþingishúsið sjálft.
Allir starfsmennirnir eru með starfstöð í Skúlahúsi við Kirkjustræti. Því er áætlað að smithættan sé bundin við það hús en ekki Alþingishúsið sjálft. Vísir/Vilhelm

Niðurstaða úr skimun hefur leitt í ljós að tveir starfsmenn skrifstofu Alþingis eru smitaðir af kórónuveirunni sem veldur COVID-19 sjúkdómnum. Áður hafði annar starfsmaður Alþingis greinst með veiruna.

Starfsmennirnir sem um ræðir voru komnir í sóttkví vegna samskipta við þann sem smitaðist fyrst en allir starfsmennirnir eru með starfsstöð í Skúlahúsi við Kirkjustræti. Því er áætlað að smithættan sé bundin við það hús.

Smitrakningarteymi Almannavarna hefur ekki sett annað starfsfólk Alþingis í sóttkví vegna smitsins en þeir sem hafa verið í samskiptum við starfsmennina hafa fengið tilkynningu um smitin.

Fleiri starfsmenn og þingmenn eru í sjálfskipaðri sóttkví að því er fram kemur á vef Alþingis, sumir af persónulegum heilsufarsástæðum eða einhvers nákomins eða almennt vegna aðstæðna. Þá eru tveir starfsmenn Alþingis í fyrirskipaðri sóttkví eftir samskipti við smitaða einstaklinga utan Alþingis. Báðir starfsmennirnir eru þó frískir.

Greint var frá því í kvöldfréttum Stöðvar 2 að starfsáætlun Alþingis hafi í fyrsta sinn verið tekin úr sambandi til að þingið geti hugað að aðgerðum vegna kórónuveirunnar. Nú þegar er búið að haga þingstörfum þannig að sem fæstir þingmenn séu í þingsölum hverju sinni og atkvæðagreiðslur fara nú fram með öðrum hætti en áður.

Starfsáætlun þingsins er úr sambandi allt fram til 20. apríl þegar þing á að koma saman aftur að loknu páskahléi.


Tengdar fréttir

Alþingi komið á neyðaráætlun

Starfsáætlun Alþingis hefur í fyrsta sinn verið tekin úr sambandi til að þingið geti hugað að einungis einu máli; aðgerðum vegna kórónuveirunar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×