Innlent

„Útgöngubann er ekki í spilunum“

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Víðir Reynisson segir ekki vera til skoðunar að setja á útgöngubann hér á landi.
Víðir Reynisson segir ekki vera til skoðunar að setja á útgöngubann hér á landi. Vísir/Vilhelm

330 kórónuveirusmit hafa nú verið staðfest hér á landi og ríflega 3700 eru í sóttkví. Eins og staðan er núna er gróflega áætlað að fjöldi smita nái hamarki um miðjan apríl. Ekki stendur til að setja útgöngubann hér á landi þótt mögulega komi til greina að grípa til harðari aðgerða.

Í gær var heildartala staðfestra smita 250 og því hafa bæst við 80 ný tilfelli síðasta sólarhringinn sem er meira en áður hefur verið greint á einum sólarhring hér á landi til þessa. Víðir Reynisson, er yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.

„Þetta sýnir greinilega að við erum komin í brekkuna á kúrvunni sem að er verið að tala um þannig að nú fara spálíkönin kannski að verða nákvæmari með það. Við vorum með keyrslur í gær sem voru að horfa einhvers staðar í kringum miðjan apríl og við uppfærum þetta á hverjum degi. Við eigum von á nýrri keyrslu út úr því spálíkani einhvern tímann í dag,“ segir Víðir.

Erfitt sé að segja til um það nákvæmlega hvenær kúrvan nái hámarki. „Í gær vorum við að horfa á að þetta væri einhvers staðar í kringum miðjan apríl og þetta svona sýnir væntanlega það að það er einhvers staðar á því bili en skekkjan ennþá dálítil í því þannig að þetta hjálpar okkur, þessar tölur í dag til að rétta líkanið af.“

Eins og er liggja ekki fyrir nýjustu upplýsingar um fjölda þeirra sem liggja á sjúkrahúsi en í gær voru það fimm. Aðspurður segir Víðir orðróm um að til standi að setja á útgöngubann ekki eiga við rök að styðjast.

„Við höfum ekki verið að skoða neinar slíkar útfærslur en við höfum alltaf sagt að við erum ekki búin að grípa til hörðustu aðgerðanna varðandi takmörkun á samkomum en það er ennþá í gildi þetta samkomubann sem sett var á og tók gildi á miðnætti á sunnudaginn og við bara metum það tíma frá tíma hvort að það þurfi að herða það eitthvað. En útgöngubann er ekki í spilunum eins og er,“ segir Víðir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×