Innlent

Sættust á samráð vegna ferðabanns Bandaríkjastjórnar

Kjartan Kjartansson skrifar
Vel fór á með Pompeo (t.v.) og Guðlaugi Þór þegar þeir hittust í Hörpu í fyrra.
Vel fór á með Pompeo (t.v.) og Guðlaugi Þór þegar þeir hittust í Hörpu í fyrra. Vísir/Vilhelm

Utanríkisráðherrar Íslands og Bandaríkjanna urðu ásáttir um að undirbúa samráð á sérfræðingastigi vegna áhrifa ferðabanns Bandaríkjastjórnar og efnahagslegra áhrifa kórónuveirufaraldursins þegar þeir ræddu saman í síma í dag. Bandaríski utanríkisráðherrann lofaði aðgerðum íslenskra stjórnvalda gegn faraldrinum.

Tilefni símtals Guðlaugs Þórs Þórðarson, utanríkisráðherra, og Mikes Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, var tímabundið bann sem Bandaríkjastjórn setti á ferðir ferðamanna af Schengen-svæðinu í síðustu viku.

Guðlaugur Þór lagði áherslu á mikilvægi þess að viðhalda farþegaflugi á milli landanna tveggja með hliðsjón af sérstakri stöðu Íslands mitt á milli Evrópu og Norður-Ameríku, að því er segir í tilkynningu utanríkisráðuneytisins vegna símtalsins. Þá ræddu þeir mikilvægi þess að tekist yrði á við efnahagslegar afleiðingar faraldursins, ekki síst fyrir millilandaflug.

„Utanríkisráðherra undirstrikaði áhrifin á flug Icelandair vestur um haf og þörfina á því að huga að stöðu mála þegar heimsfaraldurinn er genginn yfir. Ráðherrarnir urðu ásáttir um að undirbúa samráð á sérfræðingastigi um þessi mál, hugsanlega í tengslum við efnahagssamráð ríkjanna í stærra samhengi,“ segir í tilkynningunni.

Upphaflega ætluðu Guðlaugur Þór og Pompeo að funda í Washington-borg á fimmtudag. Sá fundur var blásinn af vegna ferðabannsins.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×