Innlent

Missti stjórn á bifreið og ók á hús

Sylvía Hall skrifar
Ökumaður missti stjórn á bifreið sinni í miðbæ Reykjavíkur með þeim afleiðingum að hún hafnaði á Hamborgarabúllu Tómasar.
Ökumaður missti stjórn á bifreið sinni í miðbæ Reykjavíkur með þeim afleiðingum að hún hafnaði á Hamborgarabúllu Tómasar. Aðsend

Klukkan hálf tvö í nótt barst lögreglu tilkynning um umferðaróhapp í miðbæ Reykjavíkur. Þar hafði ökumaður misst stjórn á bifreið sinni og ók á hús með þeim afleiðingum að bifreiðin skemmdist.

Engin meiðsl urðu á fólki samkvæmt upplýsingum frá lögreglu en flytja þurfti bifreiðina af vettvangi með Króki. Fréttastofu barst mynd af vettvangi í nótt þar sem má sjá að húsið sem um ræðir er Hamborgarabúlla Tómasar við Geirsgötu.

Lögregla hafði í nógu öðru að snúast í gærkvöldi og í nótt ef marka má dagbók lögreglunnar. Rétt fyrir klukkan 18 var tilkynnt um innbrot og mögulegan þjófnað á veitingahúsi í Hlíðahverfi þar sem útihurð hafði verið spennt upp. Öryggiskerfið fór í gang þegar þjófurinn braust inn en enginn var á vettvangi.

Ekki er vitað hvort einhverju var stolið.

Rétt fyrir klukkan þrjú í nótt var lögregla kölluð til í sama hverfi vegna innbrots í geymslur í fjölbýlishúsi. Maður og kona voru handtekin á vettvangi, grunuð um verknaðinn. Bæði voru vistuð í fangageymslu vegna rannsóknar.

Lögreglan stöðvaði þónokkra ökumenn í gærkvöldi og í nótt.Vísir/VIlhelm

Ökumenn undir áhrifum 

Sjö tilvik þar sem lögregla þurfti að hafa afskipti af ökumönnum í gærkvöldi og í nótt eru skráð í dagbók lögreglu. Fjórir ökumenn voru stöðvaðir á tímabilinu í miðbæ Reykjavíkur, Hlíðahverfi og Bústaða- og Háaleitishverfi vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna.

Á áttunda tímanum í gærkvöldi var ökumaður stöðvaður í Árbæ grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna.

Rétt eftir klukkan tvö í nótt var bifreið stöðvuð í Garðabæ þar sem ökumaðurinn var grunaður um ölvun við akstur. Sá er einnig grunaður um að hafa ítrekað ekið eftir að hafa verið sviptur ökuréttindum, en hann fór ekki að fyrirmælum lögreglu. Var hann vistaður í fangageymslu sökum ástands að því er fram kemur í dagbók lögreglu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.