Innlent

Áslaug Thelma áfrýjar málinu gegn Orku náttúrunnar

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Áslaug Telma gegn Orku náttúrunnar í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Áslaug Telma gegn Orku náttúrunnar í Héraðsdómi Reykjavíkur. Vísir/Vilhelm

Áslaug Thelma Einarsdóttir hefur áfrýjað dómi héraðsdóms í máli hennar gegn Orku náttúrunnar en það var niðurstaða dómsins að sýkna ON af ásökunum Áslaugar um ólögmæta uppsögn og kynbundinn launamun.

Mál Áslaugar var mikið í fjölmiðlum á sínum tíma en henni var sagt upp störfum í september 2018. Sagðist hún ekki hafa fengið haldbærar skýringar á því hvers vegna henni var sagt upp en hún hefði skömmu áður kvartað ítrekað undan hegðun yfirmanns síns, Bjarna Más Júlíussonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra Orku náttúrunnar.

Áslaug var forstöðumaður einstaklingssviðs ON en nokkrum dögum eftir uppsögn hennar var Bjarna Má sagt upp störfum vegna „óviðeigandi hegðunar“.

Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar komst að þeirri niðurstöðu að uppsagnir beggja hefðu verið réttmætar.

Héraðsdómur úrskurðaði að munur á launum Áslaugar og annars forstöðumanns sem hóf störf skömmu áður hefði verið málefnalegur þar sem Áslaug hafði enga starfsreynslu hjá fyrirtækinu.

Þá taldi dómurinn að ON hefði sýnt fram á að uppsögn Áslaugar hefði ekki komið til vegna kvartana hennar eða gagnrýni á þáverandi framkvæmdastjóra.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×