Innlent

Valinn vísindamaður ársins hjá Dönsku sykursýkisakademíunni fyrir byltingarkennda aðferð

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Uppgötvanir Páls með nýstárlegri tækni við húðsýnistöku hafa leitt af sér nýja rannsókn. Nú leitast teymið við að þróa aðferð við að slökkva á sumum af þeim verkjasameindum sem umlykja skyn-og verkjataugar í húðinni hjá sjúklingum sem glíma við langvinna verki.
Uppgötvanir Páls með nýstárlegri tækni við húðsýnistöku hafa leitt af sér nýja rannsókn. Nú leitast teymið við að þróa aðferð við að slökkva á sumum af þeim verkjasameindum sem umlykja skyn-og verkjataugar í húðinni hjá sjúklingum sem glíma við langvinna verki. Aðsend

Páll Karlsson, aðstoðarprófessor og dósent við Dönsku verkjarannsóknarmiðstöðina við Árósarháskóla, var á dögunum valinn vísindamaður ársins hjá Dönsku sykursýkisakademíunni fyrir byltingarkennda aðferð sem hann þróaði við að taka og greina lítil húðsýni sem notuð eru til að kanna ástand skyn- og verkjatauga í húðinni. Í ljós kom að krónískir verkjasjúklingar voru með verkjasameindir sem umluktu taugarnar. Páll hefur búið í Danmörku frá árinu 2007.

Í hádegisfréttum Bylgjunnar sagði Páll, aðspurður, að þetta væri mikill heiður og að honum hefði brugðið mjög við fréttirnar.

„Ég vissi að prófessorarnir á deildinni minni höfðu tilnefnt mig en ég verð að viðurkenna að mig óraði ekki fyrir að ég myndi vinna enda fjölmargt gott vísindafólk þarna.“

Í umsögn Dönsku sykursýkisakademíunnar kemur fram að aðferðir Páls hefðu valdið hugarfarsbreytingu innan vísindasamfélagsins. Aðferðin væri markaði vatnaskil eins og komist var að orði. 

Í doktorsnámi Páls á árunum 2010-2013 þróaði hann aðferð við að taka og greina lítil húðsýni til að kanna ástand lítilla skyn- og verkjatauga í húðinni hjá sjúklingum sem glíma við langvinna verki. Fjölmargir undirliggjandi sjúkdómar geta valdið verkjunum og meðal annars sykursýki. Þrjátíu prósent sykursjúkra þróa með sér taugabólgur og finna fyrir langvinnum verkjum.

Páll að störfum hjá verkjarannsóknarmiðstöðinni við Árósarháskóla. Aðsend

Uppgötvaði ákveðna þverstæðu við rannsóknina

Við rannsóknarvinnuna komst Páll að ákveðinni þverstæðu. Fyrirfram hefði hann gert ráð fyrir að fleiri skyn- og verkjataugar væru í krónískum verkjasjúklingum en í öðrum en þessar taugar gera okkur kleift að finna fyrir verkjum og snertingu. Annað kom þó á daginn eftir því sem rannsókninni vatt fram. Krónískir verkjasjúklingar reyndust hafa minna af skyn-og verkjataugum en aðrir þrátt fyrir að verkirnir séu daglegt brauð.

„Það sem við komumst að var að það eru nokkrar sameindir sem liggja utan um þessar verkjataugar og við teljum að það sé ástæðan fyrir því að sumir þessara sjúklinga fá verki því þrátt fyrir að sjúklingarnir væru með mjög lítið af þessum taugum þá sáum við mjög mikið magn af þessum verkjatengdu sameindum sem voru utan á taugunum,“ sagði Páll.

Þessi uppgötvun leiddi af sér annað verkefni sem mun vonandi lina þjáningar sjúklinganna.

„Núna erum við í því ferli að hanna nýja meðferðarrannsókn sem hefur þann tilgang að loka á eða slökkva á sumum af þessum verkjasameindum. Við vonumst til þess að það muni hjálpa þessum sjúklingum.“

Valda þessar verkjasameindir sem umlykja taugarnar bólgum hjá sjúklingunum?

„Ég hef kallað þennan króníska verkjasjúkdóm taugabólgur. Við sjáum bólgur utan á þessum taugum hjá þeim sjúklingum sem hafa verkina en nýleg rannsókn okkar sýndi að þessar bólgur hafa lítið samhengi við verkina. Við héldum í fyrstu að það væru bólgurnar sem yllu verkjunum en það virðist ekki vera.“

Agnarsmá sýni segja heilmikla sögu

Húðsýnið sem tekið er úr krónísku verkjasjúklingunum er tiltölulega smátt, í raun lítil agnarögn, miðað við þá sögu sem sýnið getur sagt rannsakendum. Sýnin eru ekki nema þrír millimetrar að ummáli.

„Það sem við síðan gerum við sýnin er að við frystum þau niður, svo skerum við þau í mjög þunnar skífur. Þá er mótefni sett og loks litarefni á frumurnar þannig að við getum séð þessar verkjataugar og numið hvort það séu bólgur í kringum taugarnar og hversu mikið af mismunandi verkjasameindum eru til staðar.“

Páll segir að frásagnir sjúklinganna sjálfra af verkjum hafi verið honum innblástur.

„Ég hef mjög gaman af því að vera í mannlegum samskiptum og að geta hitt þessa sjúklinga sem eru með sykursýki og hafa jafnvel verið með verki í fleiri áratugi. Þeir segja mér að þeir hafi kannski lifað við þessa brennandi verki í langan tíma. Þetta eru verkir upp á 8, 9 og jafnvel 10 á þessum 0-10 skala sem við notum til að mæla verki og þá er ekki annað hægt en að fyllast innblæstri og vilja gera sitt allra, allra besta til að komast að því hvers vegna þessir sjúklingar fá verki.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×