Innlent

Fjármálaráðherra segir ganga vel að fjármagna halla ríkissjóðs

Heimir Már Pétursson skrifar
Seðlabankinn býr yfir miklum gjaldeyrisforða sem fjármálaráðherra segir ekki hafa verið nýttan af ráði í covid-kreppunni.
Seðlabankinn býr yfir miklum gjaldeyrisforða sem fjármálaráðherra segir ekki hafa verið nýttan af ráði í covid-kreppunni. Grafík/Hjalti

Fjármálaráðherra hefur ekki áhyggjur af fjármögnun á halla ríkissjóðs á þessu og næstu árum þótt hann sé töluvert meiri en á árunum eftir bankahrunið. Vel hafi gengið að fjármagna hallann og ýmis kostir í stöðunni.

Reiknað er með að halli verði á rekstri ríkissjóðs upp á um 270 milljarða króna á þessu ári og um 260 milljarða á því næsta, sem er mikill viðsnúningur frá rekstri ríkissjóðs á undanförnum árum. Hallinn á þessu ári verður til að mynda töluvert meiri en á árið eftir bankahrunið (2009) þegar hann var 194 milljarðar. Seðlabankastjóri hefur sagt æskilegt að ríkissjóður fjármagnaði hallan að hluta til að minnsta kosti með erlendri lántöku til að styrkja gengi krónunnar.

„Ríkissjóði hefur gengið vel að fjármagna sig á þessu ári. Allt sem hefur þurft að fjármagna er í raun og veru búið,“ segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.

Hallinn á ríkissjóði fram til ársins 2025 verður töluvert meiri en hann var á árunum eftir bankahrunið. Þá rauk verðbólgan upp úr öllu valdi og gengi krónunnar hrundi sem ekki hefur gerst nú þótt gengið hafi gefið töluvert eftir og verðbólgan sé yfir 2,5 % markmiðum Seðlabankans.Grafík/HÞ

Samkvæmt fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til ársins 2025 verður afkoma ríkissjóðs neikvæð upp á samanlagt 900 milljarða. Það er töluvert meiri halli en árin 2008 til 2013 þegar samanlagður halli var um 658 milljarðar. En þá fór verðbólga í hæstu hæðir og gengið féll um tugi prósenta sem ekki hefur gert núna, þótt gengið hafi gefið töluvert eftir gagnvart helstu gjaldmiðlum og verðbólga sé yfir markmiði Seðlabankans.

Bjarni Benediktsson segir hallan á rekstri ríkisjóðs á þessu ári þegar hafa verið fjármagnaðan og er bjartsýnn á framhaldið.Vísir/Vilhelm

Fjármálaráðherra segir ríkissjóð hafa nokkra möguleika í stöðunni.

„Við eigum þann valkost að fara í erlnda útgáfu. Við eigum sömuleiðis nokkuð öflugan gjaldeyrissjóð vegna fyrri lántöku. Það hefur lítið reynt enn sem komið er á magnbundna íhlutun Seðlabankans. Svo erum við með þennan innanlandsmarkað. Sala eigna er enn eitt atriðið sem væri hægt að bæta í þennan sarp,“ segir Bjarni.

Hann hafi því ekki áhyggjur af fjármögnun hallans. Mestu skipti að auka hagvöxt. Að aðgerðir stjórnvalda skili árangri og kröftugri viðspyrnu og bóluefni komi sem fyrst þótt erlend lántaka gæti stutt við krónuna tímabundið.

„En það sem við erum að leita að er langtíma jafnvægi. Þar skiptir auðvitað langmestu máli að það sé kraftmikil gjaldeyrisöflun fyrir þjóðarbúið í heild,“ segir Bjarni. Það væri besta langtímalausnin og þá þyrfti síður að treysta á einskiptisaðgerð eins og erlenda lántöku vegna innlendrar samneyslu sem aldrei gæti verið lausn til lengri tíma á gengi gjaldmiðilsins.


Tengdar fréttir

Gera ráð fyrir 38 milljörðum vegna hlutabótaleiðar

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu verður í nýju frumvarpi til fjáraukalaga gert ráð fyrir 38 milljörðum króna vegna hlutabótaleiðarinnar og 25 milljörðum vegna greiðslu hluta launa í uppsagnarfresti.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.