Innlent

Dæmdur fyrir líkams­á­rás, hús­brot og hótanir

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Dómur yfir manninum féll í Héraðsdómi Suðurlands.
Dómur yfir manninum féll í Héraðsdómi Suðurlands.

Karlmaður hefur verið dæmdur í fimm mánaða fangelsi fyrir líkamsárás, húsbrot, hótanir og brot gegn fíkniefnalögum. Manninum var einnig gert að greiða konunni sem árásin beindist að hálfa milljón króna í miskabætur.

Í dómi Héraðsdóms Suðurlands yfir manninum segir að maðurinn hafi ruðst í heimildarleysi inn á heimili konu á síðasta ári. Hann hafi verið í bræðiskasti og ráðist að manni sem var gestur á heimili konunnar, hótað honum lífláti, elt hann um húsnæðið og kýlt til hans en ekki hitt.

Konunni hafi þá tekist að skilja mennina í sundur þannig að gestinum tókst að komast fáklæddur á hlaupum út úr húsinu. Þá hafi hinn dæmdi hins vegar veist að konunni með því að grípa um handleggi hennar og hrinda henni til þannig að hún féll utan í veggi og á kommóðu, með þeim afleiðingum að á henni sá.

Maðurinn var einnig dæmdur fyrir fíkniefnalagabrot, sem hann játaði fyrir dómi, en alls fundust 25 kannabisplöntur á heimili hans á síðasta ári.

Í dómi héraðsdóms kemur fram að sakaferill mannsins nái aftur til ársins 2007. Síðan þá hafi hann níu sinnum verið dæmdur til óskilorðsbundinnar fangelsisrefsingar, samtals í 51 mánuð. Flestir dómanna snúa að umferðarlagabrotum mannsins, en hann hafði ekki verið dæmdur fyrir ofbeldisbrot fram að þessu.

Litið var til sakaferils mannsins þegar refsing var ákveðin. Auk fimm mánaða fangelsisvistar og miskabóta til konunnar sem árásin beindist að er manninum gert að greiða sakarkostnað, rúmlega 2,1 milljón til verjanda síns og rúmlega 676.000 krónur til réttargæslumanns brotaþola, auk aksturkostnaðar.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.