Innlent

Býst við því að nýprentaðir peningar fari til þeirra sem mest þurfa

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. Foto: Vilhelm Gunnarsson/Vilhelm Gunnarsson

Seðlabankastjóri segir að Seðlabankinn sé að fara prenta peninga. Ríkisstjórnin muni fá peningana og hann búist við því að þeir fari til þeirra sem þurfa á þeim að halda.

Í síðustu viku lækkaði Seðlabankinn stýrivexti í 0,75 prósent og hafa þeir aldrei verið lægri. Ákvörðun bankans kom nokkuð á óvart en bæði Landsbankinn og Íslandsbanki höfðu spáð óbreyttum stýrivöxtum. Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri segir að efnahagshorfur hafi versnað meira en bankinn hafði álitið.

„Við vorum komin vel á veg með að örva eftirspurn í sumar og haust en svo kom önnur og þriðja bylgja þannig við töldum okkur þurfa að bregðast við því,“ segir Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. Það sé gríðarlega mikill samdráttur í efnahagslífinu og mikið atvinnuleysi sem hafi þurft að bregðast við.

Aðspurður segir Ásgeir að það sé alveg möguleiki á því að vextir verði lækkaðir enn meira. „En við höfum líka önnur tæki. Við getum prentað peninga með því að kaupa ríkishlutabréf til að taka niður langtímavexti,“ segir Ásgeir.

Kristrún Frostadóttir aðalhagfræðingur Kviku banka sagði í Kastljósi í síðustu viku að Seðlabankinn og stjórnvöld væru á rangri leið. Stór hluti þess fjármagns sem sett var í umferð til að styðja við hagkerfið hafi runnið inn á fasteignamarkaðinn í stað þess að fara til fólks og fyrirtækja sem hafa lent í mesta tekjuáfallinu.

Ásgeir segir þetta ekki vera rétt. „Það var staðan í vor að við vildum hvetja bankana til að lána, við lækkuðum kvaðir á þá og ýttum út lausafé sem þeir áttu hjá okkur því við vildum að þeir myndu örva kerfið. Við töldum okkur þurfa að styðja við heimilin, lágir vextir, stöðugt gengi og hvetja áfram fasteignamarkaðinn og það heppnaðist. Við erum enn ekki byrjaðir að prenta peninga þar sem við erum að fara afhenta einhver verðmæti út úr seðlabankanum. Við erum að fara byrja á því núna,“ segir Ásgeir.

Ríkissjóður muni fá þá peninga og tekur ákvörðun um það hvernig þeim verður deilt. „Mér sýnist á öllu eins og aðgerðirnar sem þau voru að tilkynna um helgina að þessir peningar séu að fara til þeirra sem þurfa á þeim að halda,“ segir Ásgeir.

Aðalhagfræðingur Kviku banka sagði jafnframt í Kastljósi að um 300 milljarðar króna hefðu verið prentaðar í seðlum. Um helmingur þessa fjár hefði farið inn á húsnæðislánamarkaðinn.

Ásgeir segir að þetta séu ekki peningar sem Seðlabankinn hafi prentað heldur lausafé sem bankarnir áttu í seðlabankanum. „Við lokuðum þessum reikningum þannig að bankarnir urðu að taka peninginn út og við hvöttum þá til að lána. Þannig þetta er bankakerfið að lána út. Það er óeðlilegt að bankarnir láni til fasteignakaupa. Þetta eru öruggustu lánin fyrir þá og á þessum tíma var fasteignamarkaðurinn eiginlega að deyja. Þannig við töldum að þetta væri liður í því að örva hagkerfið,“ segir Ásgeir.

Á næstu árum vilji hann gjarnan sjá bankana nýta efnahagsreikninginn sinn í fyrirtækjalán. „En enn sem komið er tel ég ekki að þetta sé neitt vandamál,“ segir Ásgeir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×