Lífið

Ís­lendingar gera grín að hóli Bloom­bergs: „Þríeykið? Niii. Einvaldurinn Dagur Bjé“

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Bloomberg fer fögrum orðum um viðbrögð Dags B. Eggertssonar við faraldrinum.
Bloomberg fer fögrum orðum um viðbrögð Dags B. Eggertssonar við faraldrinum. Vísir

Bandaríski stjórnmálamaðurinn Michael Bloomberg birti í dag viðtal sem hann tók við Dag Eggertsson, borgarstjóra Reykjavíkur, um viðbrögð Íslands við kórónuveirufaraldrinum. Viðtalið birti hann á Twitter-síðu sinni en það var tekið fyrir góðgerðarsamtökin Bloomberg Philanthropies.

Bloomberg hefur viðtalið á stuttu innslagi þar sem hann segir að grunnur Dags í læknisfræði hafi reynst honum hjálplegur í viðbrögðum borgarinnar við kórónuveirufaraldrinum.

„Borgin varð til fyrirmyndar á heimsmælikvarða hvað varðaði skimanir, rakningu og sóttkvíarúrræði,“ segir Bloomberg í viðtalinu.

Íslendingar hafa svarað Bloomberg á Twitter og virðast margir, ef ekki flestir þeirra, mótmæla niðurstöðu Bloombergs, um að menntun Dags hafi haft áhrif á viðbrögð sóttvarnayfirvalda hér á landi.

„Fyrirgefðu @MikeBloomberg Borgarstjóri Reykjavíkur hefur ekkert með það að gera hvernig við bregðumst við Covid faraldrinum hérna. Ekki neitt. Við höfum þríeyki sérfræðinga, þau ráða för þegar kemur að viðbrögðum við faraldrinum á landsvísu og að lokum er það heilbrigðisráðherra sem tekur lokaákvörðun,“ skrifar Hallgrímur Egilsson í svari við viðtali Bloombergs.

Fleiri taka í sömu strengi og skrifar Daníel Rúnarsson: „Þríeykið? Niii. Einvaldurinn Dagur Bjé.“

Árni Helgason grínast einnig með viðtalið og segir að á sama tíma og Dagur hafi einsamall bjargað viðbrögðum Íslands við faraldrinum hafi honum tekist að laga „bank í ofnunum.“

Reykjavíkurborg og Dagur Eggertsson sjálfur deildu tísti Bloombergs og sagði Dagur það hafa verið virklega gaman að sjá Bloomberg og Bloomberg Philanthropies „lyfta árangri Reykjavíkur og Íslands í viðureigninni við Covid-19.“

Hörður S. Jónsson er harðorður um viðtalið og segir það falsfréttir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×