Innlent

„Þetta er auðvitað bara eftirfylgniskýrsla“

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra. Vísir/Vilhelm

Illa hefur verið brugðist við tillögum sem miða að því að draga úr spillingu innan stjórnsýslu lögreglunnar, samkvæmt nýrri skýrslu. Samtök ríkja innan Evrópuráðsins gegn spillingu, GRECO, gerðu fyrir tveimur árum átján tillögur að aðgerðum sem talið var að íslensk stjórnvöld þyrftu að ráðast í til að sporna við spillingu. Í nýrri skýrslu er farið yfir skýrslu stjórnvalda.

Þar segir að orðið hafi við fjórum tillögum með fullnægjandi hætti og sjö að hluta. Ekki hafi verið brugðist við öðrum sjö. Forsætisráðherra telur stjórnvöld þó hafa sýnt ríkan vilja til að ráðast í umbætur.

„Ég nefni sérstaklega ný upplýsingalög, lög um varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdavalds og svo lög um uppljóstrara,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir ríkan vilja til að ráðast í umbætur.Vísir/Vilhelm

Nær allar eða sex af sjö tillögum lúta að lögreglumálum. Dómsmálaráðherra hafnar því að í því felist einhvers konar áfellisdómur yfir dómsmálaráðuneytinu.

„Þetta er auðvitað bara eftirfylgniskýrsla og við höfðum fleiri mánuði til að klára þessi tilmæli sem þarna koma fram. Lögregluráði var til dæmis komið á fótinn í byrjun ársins til að efla þetta innra samstarf og samhæfa störf lögreglunnar, svo hún komi í auknum mæli fram sem ein liðsheild,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.

Í fyrri skýrslu kom fram að pólitískar tengingar geti haft truflandi áhrif á störf lögreglu. Samtökin segja vanta skýr og gagnsæ viðmið þegar ákvörðun er tekin um að endurnýja ekki skipanir. Skortur á þessu og fastur fimm ára skipunartími auki hættuna á pólitískum áhrifum.

Áslaug Arna hefur skipað fimm lögreglustjóra auk ríkislögreglustjóra frá því hún tók við embætti dómsmálaráðherra.

„Lögregla er algjörlega sjálfstæð í sínum aðgerðum þótt hún starfi í umboði dómsmálaráðherra.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×