Innlent

Lýsa yfir þungum á­hyggjum af sam­göngu­öryggi á sunnan­verðum Vest­fjörðum

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps lýsir yfir þungum áhyggjum af samgönguöryggi á sunnanverðum Vestfjörðum.
Sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps lýsir yfir þungum áhyggjum af samgönguöryggi á sunnanverðum Vestfjörðum. Vísir/Samúel

Sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps lýsir yfir þungum áhyggjum af samgönguöryggi íbúa á sunnanverðum Vestfjörðum. Samgönguöryggi sé lítið á svæðinu og bendir sveitarstjórnin á í tilkynningu að Klettshálsi hafi verið lokað í fjórar klukkustundir eða meira í alls fjörutíu skipti það sem af er ári.

Fram kemur í tilkynningunni að stórauknir flutningar vegna framleiðslu á svæðinu krefjist þess að samgöngur séu öruggar og svo sé nú ekki. Klettsháls sé farartálmi að vetri vegna veðurhæðar og fari vindstyrkur yfir 20 metra á sekúndu sé flutningabílum óheimilt að fara þar um.

Sveitarstjórnin lýsir yfir þungum áhyggjum vegna ástandsins og sé uggandi yfir því hve oft hálsinum hafi verið lokað á þessu ári og bendir á að enn séu 44 dagar til áramóta. Í þessu ástandi verði íbúar og vörur að eiga greiða og örugga leið yfir Breiðafjörð með Baldri.

Sveitarstjórnin leggur því áherslu á að ferðum Baldurs verði fjölgað til þess að koma til móts við flutningsþörf svæðisins, og að byrjað verði að huga að endurnýjun ferjunnar til að tryggja að öryggi og aðbúnaður sé samkvæmt lagalegum kröfum.

Þá segir í tilkynningunni að leggja verði aukna áherslu á vetrarþjónustu Vegagerðarinnar á vegum á svæðinu. Hana þurfi verulega að auka og bæta.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.