Innlent

Spenntir fyrir skólanum og biðraðir hjá hárgreiðslustofum

Sunna Karen Sigurþórsdóttir og Samúel Karl Ólason skrifa

Framhaldsskólanemar urðu hissa á því hversu spenntir þeir voru að fá loks að mæta aftur í skólann í dag, nú þegar létt hefur verið á samkomutakmörkunum. Þá fengu börn að stunda sínar íþróttir aftur á ný og biðröð var út á götu á hárgreiðslustofum borgarinnar.

Létt hefur verið á samkomutakmörkunum nú þegar kórónuveirufaraldurinn virðist vera á afturhaldi en alls greindust ellefu með veiruna í gær, og þar af voru níu í sóttkví. Einn lést á Landspítalanum í gær og hefur veiran því orðið 26 manns að bana frá því í lok febrúar.

Nýjar reglur um samkomutakmarkanir tóku gildi á miðnætti, en enn er tíu manna samkomubann, tveggja metra regla og grímuskylda þar sem ekki er unnt að tryggja fjarlægð fólks.

Helstu breytingar eru þær að nú mega hárgreiðslu -og snyrtistofur opna aftur, íþróttastarf barna á leik- og grunnskólaaldri er nú heimilt og framhaldsskólar gátu víða opnað aftur.

Hrafnhildur Arnardóttir, eigandi Greiðunnar, og Helga Sverrisdóttir.Vísir/Egill

Eins og sjá má í meðfylgandi sjónvarpsfrétt virðist sem nóg hafi verið að gera á hárgreiðslustöðvum.

Hrafnhildur Arnardóttir, eigandi Greiðunnar, sagði að það hefði verið brjálað að gera hjá sér í dag. Viðskiptavinir hennar, þau Helga Sverrisdóttir og Sveinn Snæland sögðu það mjög gott að komast í klippingu.

Þau Emla Eik, Krummi Kaldal og Kári Daníel, nemendur í Verzlunarskólanum, sögðu það hafa komið sér á óvart hve spennt þau voru fyrir því að mæta í skólann. Það væri ekki hefðbundið.

Emla Eik, Krummi Kaldal og Kári Daníel, nemendur í Verzlunarskólanum.Vísir/Egill

Ingi Ólafsson, skólastjóri Verzlunarskólans, sagði mikla gleði meðal nemenda og það væri gaman að heyra líf í skólahúsinu.

„Það eru hlátrasköll og þau eru öll svo glöð og ánægð,“ sagði Ingi.

Þá vantaði ekkert upp á gleðina hjá krökkum sem gátu mætt aftur á æfingu hjá Þrótti í dag.

Stúlkur á æfingu hjá Þrótti í dag.Vísir/Egill

Tengdar fréttir

Þessar breytingar taka gildi á morgun

Létt verður á samkomutakmörkunum á morgun þegar ný reglugerð heilbrigðisráðherra tekur gildi, þó áfram verði tíu manna hámark. Nýgengi smita hér á landi er nú það næstlægsta í Evrópu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×