Innlent

Tveir nýir stofnar veirunnar hafa valdið tveimur hóp­sýkingum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, og Alma Möller, landlæknir, á upplýsingafundinum í dag.
Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, og Alma Möller, landlæknir, á upplýsingafundinum í dag. Almannavarnir

Tveir nýir stofnar kórónuveirunnar hafa greinst hér á landi undanfarið og hafa þeir valdið tveimur hópsýkingum.

Þetta kom fram í máli Þórólfs Guðnasonar, sóttvarnalæknis, á upplýsingafundi almannavarna og landlæknis í dag. Sagði Þórólfur raðgreiningu veirunnar sýna að áfram væri mest verið að fást við sama stofn af veirunni.

„Hins vegar hafa fundist tveir nýir stofnar sem hafa verið að valda tveimur hópsýkingum núna undanfarið. Annan stofninn má rekja til landamæra en hinn stofninn hefur ekki fundist á landamærum þannig að einhvern veginn hefur hann komist framhjá kerfinu okkar. Þannig að þetta er eins og við höfum áður sagt, á sama tíma erum við að stöðva og greina um 350 einstaklinga á landamærunum, þannig að ég held að við getum sagt að aðgerðir okkar á landamærunum eru að lágmarka það að veiran komist hér inn þótt það kom ekki fyllilega í veg fyrir það,“ sagði Þórólfur.

Spurður nánar út í hópsýkingarnar, hvar þær hefðu til að mynda komið upp og hversu margir hefðu smitast, vildi Þórólfur ekki fara út í smáatriði varðandi það.

Vísaði hann í að sóttvarnayfirvöld og almannavarnir hefðu haft það fyrir reglu að fara ekki út í smáatriði hópsýkinga nema það hefði tilgang fyrir rakningarteymið og almannaheill. Því væri ekki endilega farið svo í þessum tilfellum en um væri að ræða hópsýkingar sem tengdust ákveðnum fyrirtækjum.

Þá sagði Þórólfur það ekki hafa úrslitaþýðingu hvort veiran sem greinist sé af einum eða öðrum stofni. Það sem hefði þýðingu varðandi greiningu á mismunandi stofnum væri að sjá hvort og hvenær veiran kemst í gegnum landamærin.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×