Innlent

Fimmti hver frá Póllandi atvinnulaus hér á landi

Birgir Olgeirsson skrifar
Vinnumálastofnun býst við að staðan á vinnumarkaði muni versna í nóvembermánuði vegna kórónuveirufaraldursins. 
Vinnumálastofnun býst við að staðan á vinnumarkaði muni versna í nóvembermánuði vegna kórónuveirufaraldursins.  Vísir/Hanna

Almennt atvinnuleysi var 9,9 prósent í október og jókst um tæpt prósentustig frá september. Vinnumálastofnun spáir því að atvinnuleysi muni aukast í nóvember í ljósi þeirrar erfiðu stöðu sem er á vinnumarkaði vegna Covid-19.

Í októberskýrslu Vinnumálastofnunar kemur fram að alls hafi 20.252 verið atvinnulausir í almenna bótakerfinu í lok mánaðar og 4.759 í minnkaða starfshlutfallinu, eða samtals 25.011 manns. Samanlagt atvinnuleysi í almenna bótakerfinu og minnkaða starfshlutfallinu var 11,1 prósent í október.

Heildaratvinnuleysi er langmest á Suðurnesjum, 20,1 prósent.

Alls var 8.204 af erlendu bergi brotnu án atvinnu í lok október. Þessi fjöldi samsvarar um 22% atvinnuleysi meðal erlendra ríkisborgara. Auk hefðbundinna atvinnuleitenda voru einnig erlendir ríkisborgarar á hlutabótaleið eða alls 1.409 og má gera ráð fyrir að heildaratvinnuleysi erlendra ríkisborgara hafi verið nálægt 25,0% í október

Flestir erlendir ríkisborgarar á atvinnuleysisskrá án minnkaðs starfshlutfalls komu frá Póllandi eða 4.063, sem er um 50% allra erlendra ríkisborgara á atvinnuleysisskrá. Því næst koma Litháar, Lettar og Rúmenar en færri af öðrum þjóðernum.

Á vef Hagstofunnar kemur fram að hinn 1. janúar síðastliðinn voru 20.477 einstaklingar frá Póllandi hér á landi, sem gerir 37% allra innflytjenda. Sem þýðir að nær 20 prósent, eða fimmtungur, Pólverja er atvinnulaus hér á landi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×