Innlent

Úlfar og Grímur skipaðir í stöðu lög­reglu­stjóra á Suður­nesjum og í Vest­manna­eyjum

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Dómsmálaráðherra hefur skipað Úlfar Lúðvíksson í embætti lögreglustjóra á Suðurnesjum og Grím Hergeirsson í embætti lögreglustjóra í Vestmannaeyjum.
Dómsmálaráðherra hefur skipað Úlfar Lúðvíksson í embætti lögreglustjóra á Suðurnesjum og Grím Hergeirsson í embætti lögreglustjóra í Vestmannaeyjum.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hefur skipað Úlfar Lúðvíksson í embætti lögreglustjóra á Suðurnesjum. Þá hefur hún jafnframt skipað Grím Hergeirsson í embætti lögreglustjóra í Vestmannaeyjum. Þeir Úlfar og Grímur eru skipaðir í embætti að undangengnu mati hæfnisnefndar og miðast upphaf skipunartíma við 16. nóvember næstkomandi að því er fram kemur í tilkynningu frá dómsmálaráðuneytinu.

Ólafur Helgi Kjartansson, sem gegndi embætti lögreglustjóra á Suðurnesjum, tók við starfi sérfræðings í málefnum landamæra í dómsmálaráðuneytinu í haust og var Grímur þá settur tímabundið í embættið. Hann mun þó nú taka við embættinu í Vestmannaeyjum og Úlfar fyllir stöðuna á Suðurnesjum.

Úlfar hefur meðal annars gegnt embætti lögreglustjóra á Vesturlandi og á Vestfjörðum og embætti sýslumanns á Ísafirði og Patreksfirði. Hann hefur jafnframt verið formaður Lögreglustjórafélagsins frá 2016.

Grímur starfaði um árabil hjá lögreglunni á Selfossi og hefur gegnt kennslustörfum við Lögregluskóla ríkisins og hefur gegnt ýmsum stöðum innan lögreglunnar. Frá 2017 hefur hann verið staðgengill lögreglustjóra á Suðurlandi og yfirmaður ákærusviðs embættisins. Hann hefur tvisvar verið settur lögreglustjóri á þessu ári, í samtals fimm mánuði, fyrst á Suðurlandi en síðan á Suðurnesjum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×