Innlent

Snörp og ó­venju­leg skjálfta­hrina í Eyja­firði

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Skjálftahrinan varð um einn kílómetra norður af Hrísey.
Skjálftahrinan varð um einn kílómetra norður af Hrísey. Vísir/Egill

Lítil jarðskjálftahrina hófst 31. október síðastliðinn um einn kílómetra norðan af Hrísey í Eyjafirði. Í hrinunni mældust um 30 jarðskjálftar sem allir voru frekar litlir, en henni lauk 4. nóvember. Frá þessu er greint á vef Veðurstofu Íslands.

Skjálftarnir voru allir innan við 1,5 að stærð, og flestir undir 1. Samkvæmt Veðurstofunni verður fólk almennt ekki vart við skjálfta að þessari stærð. Þeir vöktu þó athygli sérfræðinga veðurstofunnar, enda er þessi fjöldi skjálfta óvanalegur á þessum slóðum.

„Við nánari athuganir á upptökum skjálftanna kemur í ljós að þeir eru á mjög afmörkuð svæði og litlu dýpi, um 2-4 km. Til samanburðar eru skjálftar sem tilheyra hrinunni á Tjörnnesbrotabeltinu að mælast á 10 km dýpi,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Þá segir að ekki sé loku fyrir það skotið að skjálftarnir tengist óróleika vegna jarðskorpuhreyfinga úti fyrir mynni Eyjafjarðar, þó líklegra þyki út frá staðsetningu skjálftanna og lítið dýpi upptaka þeirra, að þeir tengist jarðhitavirkni sem finna má víða í firðinum. Náttúruváreftirlit Veðurstofunnar fylgist áfram vel með svæðinu í samvinnu við Jarðvísindastofnun, Íslenskar orkurannsóknir (ÍSOR) og Almannavarnadeild lögreglunnar.

Í lok júní lýstu almannavarnir yfir óvissuástandi vegna skjálftavirkni úti fyrir Norðurland þegar öflug jarðskjálftahrina hófst í Eyjafjarðarálnum. Síðan þá hefur svæðið verið undir mera eftirliti en ella.

„Óvenju mikil jarðskjálftavirkni hefur verið fyrir norðan síðan í sumar, sér í lagi fyrir mynni Eyjarfjarðar þar sem gliðnunarbelti í Eyjafjarðarál mætir Húsavíkur- og Flateyjarmisgenginu.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×