Innlent

Guðlaugur Þór fundaði með Pompeo

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Mike Pompeo utanríkisráðherra Bandaríkjanna og Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra Íslands á fundi í Hörpu í fyrra.
Mike Pompeo utanríkisráðherra Bandaríkjanna og Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra Íslands á fundi í Hörpu í fyrra. Vísir/vilhelm

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra fundaði með Mike Pompeo utanríkisráðherra Bandaríkjanna á fjarfundi í dag. Fram kemur í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins að viðskipta- og efnahagsmál hafi verið aðalumræðuefni fundarins.

Guðlaugur hafi meðal annars lýst yfir ánægju með formlegt efnahagssamráð ríkjanna sem sett var á laggirnar eftir fund ráðherranna í fyrra. Reglubundið efnahagssamráð hafi verið fest í sessi og Íslandsfrumvarpið væri nú í umfjöllun Bandaríkjaþings. Fundurinn í dag hafi staðfest „enn frekar góð tengsl ríkjanna“.

Guðlaugur og Pompeo hittust fyrst í Washington í janúar 2019 og svo aftur í Reykjavík rúmum mánuði síðar. Á þeim fundi var ákveðið að setja efnahagssamráð ríkjanna á fót og var fyrsti fundur þess haldinn í Reykjavík snemmsumars 2019. Í síðustu viku fór svo efnahagssamráðið fram í annað sinn og var á þeim fundi undirritað sameiginlegt minnisblað um áframhaldandi samvinnu á ýmsum sviðum á þessum vettvangi.

Þessu til viðbótar hefur Bandaríkjaþing nú til umfjöllunar frumvarp um sérstakar vegabréfsáritanir fyrir íslenskt viðskiptafólk, svonefndar E1 og E2-áritanir. Ákvörðun um að þingið fjallaði um málið, Íslandsfrumvarpið sem svo hefur verið kallað, lá fyrir í lok síðasta árs.

Guðlaugur segir í samtali við Ríkisútvarpið að staðan á forsetakosningunum í Bandaríkjunum hafi lítið verið rædd á fundinum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×