Innlent

Dagur braut ekki per­sónu­verndar­lög með birtingu at­huga­semdar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri. Vísir/Vilhelm

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri braut ekki persónuverndarlög með því að birta persónuupplýsingar, sem áður höfðu birst á vef Reykjavíkurborgar, á vefsíðu sinni árið 2018. Þetta kemur fram í úrskurði Persónuverndar í málinu sem birtur var í gær.

Kvartandi sendi Persónuvernd erindi vegna málsins í september 2018 en þess er getið í úrskurðinum að meðferð málsins hafi dregist vegna mikilla anna hjá Persónuvernd. Kvörtuninni var beint að borgarstjóra vegna birtingar hans á innsendri athugasemd kvartanda vegna tillögu umhverfis- og skipulagsráðs að tilteknu deiliskipulagi. Athugasemdin innihélt nafn kvartanda og kennitölu.

Umrædd athugasemd og upplýsingarnar í henni höfðu áður verið birtar á vef Reykjavíkurborgar. Kvartandi taldi hins vegar að hann hefði ekki gefið borgarstjóra leyfi til að birta upplýsingarnar á persónulegri vefsíðu hans.

Borgarstjóri vísaði til þess í svari sínu að umræddar upplýsingar hefðu verið birtar með fundargerð borgarráðs í febrúar 2017. Á vefsíðu borgarstjóra hefðu auk fundargerðarinnar verið birt öll gögn sem lögð hafi verið fyrir ráðið. Kvörtunin lyti að birtingu gagna sem þegar hefðu verið opinber og aðgengileg á opinberum vettvangi og því væri ekki unnt að líta svo á að um sjálfstæða vinnslu persónuupplýsinga væri að ræða.

„Í ljósi athugasemda kvartanda í málinu hafi þó umræddum gögnum verið eytt af vefsíðunni […], án þess þó að í því felist yfirlýsing eða viðurkenning á því að miðlun þessara gagna hafi verið í andstöðu við persónuverndarlög,“ segir í úrskurði Persónuverndar.

Það var að endingu mat Persónuverndar, með hliðsjón af eðli þeirra persónuupplýsinga og gagna sem málið varðar, að borgarstjóri hefði mátt ganga út frá því að birtingin samrýmdist persónuverndarlögum. Birting persónuupplýsinganna hefði jafnframt samræmst ákvæðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×