Menning

Þetta eru verðlaunahafar Norðurlandaráðs í ár

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Vinningshafarnir.
Vinningshafarnir. Norðurlandaráð.

Monika Fagerholm, Jens Mattsson, Jenny Lucander, Dag Johan Haugerud, Yngve Sæther, Sampo Haapamäki og Jens-Kjeld Jensen tóku við verðlaunum Norðurlandaráðs 2020 á stafrænni verðlaunaafhendingu í kvöld.

Norðurlandaráð veitir fimm verðlaun ár hvert: bókmenntaverðlaun, kvikmyndaverðlaun, tónlistarverðlaun, umhverfisverðlaun og barna- og unglingabókmenntaverðlaun. Verðlaunahafinn hlýtur að launum verðlaunagripinn Norðurljós og 350 þúsund danskar krónur og eru verðlaunin veitt í tengslum við árlegt þing Norðurlandaráðs.

Finnski rithöfundurinn Monika Fagerholm hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2020 fyrir skáldsöguna Vem dödade bambi? („Hver drap Bamba?“). Fagerholm hlaut verðlaunin fyrir verk sem ólgar af orku og fáguðum siðferðisboðskap, að því er segir í rökstuðningi dómnefndar.

Myndabókin Vi är lajon! („Við erum læón!“) eftir sænska rithöfundinn Jens Mattsson og finnska myndskreytinn Jenny Lucander hlaut barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2020. Verkið stendur staðfastlega með barninu og sjónarhorn barnsins skín í gegn í bæði texta og myndskreytingum, að því er segir í rökstuðningi dómnefndar.

Norska kvikmyndin Barn („Börn“) eftir handritshöfundinn og leikstjórann Dag Johan Haugerud og framleiðandann Yngve Sæther hlaut kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs 2020. Þetta metnaðarfulla verk kannar sambandið milli barns og fullorðins af innlifun og alvöruþunga og vekur ýmsar áleitnar spurningar, að því er segir í rökstuðningi dómnefndar.

Finnska tónskáldið Sampo Haapamäki hlaut tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs 2020 fyrir verkið Konsertto neljäsosasävelaskelpianolle ja kamariorkesterille („Konsert fyrir kvarttónapíanó og kammersveit“). Verkið þykir sameina með einstökum hætti náttúrulega tónlistargáfu, tilkomumikla færni og óþreytandi könnunarleiðangur á vit sígildrar tónlistarhefðar, að því er segir í rökstuðningi dómnefndar.

Jens-Kjeld Jensen hlaut umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2020 fyrir viðleitni sína til að vekja athygli á fjölbreytileikanum í færeyskri náttúru. Jens-Kjeld á í samstarfi við náttúruvísindafólk um allan heim og hefur komið að kortlagningu á yfir 350 nýjum tegundum í Færeyjum, að því er segir í rökstuðningi dómnefndar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.