Innlent

Segir það árás á lífsgæði almennings ef ríkisstjórnin hjálpar ekki sveitarfélögum

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Velferðarráðs Reykjavíkurborgar.
Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Velferðarráðs Reykjavíkurborgar. Vísir/Baldur

Sveitarfélög kalla eftir inngripi frá ríkinu til að forðast yfirvofandi skuldsetningu vegna faraldurs kórónuveirunnar.

Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarfulltrúi segir stöðuna koma verst niður á Reykjavík.

„Það er mikð atvinnuleysi og tekjutap í Reykjavík. En við teljum okkur geta farið í gegnum þetta. Eins og önnur sveitarfélög sæjum það sem ótvíræðan kost að ríkisstjórnin kæmi sterkar inn í þetta með okkur. Við hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga höfum kallað eftir því ekki síst fyrir minni sveitarfélög sem mörg hver eru skuldsett eftir síðustu kreppu,“ sagði Heiða Björg.

Heiða Björg segir stöðuna koma verst niður á Reykjavík.Vísir/Baldur

Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarfulltrúi og Halla Björk Reynisdóttir, bæjarfulltrúi á Akureyri ræddu stöðu sveitarfélaganna í Sprengisandi í morgun. 

Árás á lífsgæði almennings

Heiða segir að sjaldan hafi þjónusta sveitarfélaganna verið jafn mikilvæg. Hún segir að ef halda eigi uppi lífsgæðum almennings um allt land þá verði ríkisstjórnin að hjálpa sveitarfélögunum.

„Ríkisstjórnin þarf að dempa þetta mikla tekjufall og þessa miklu útgjaldaaukningu sem við sjáum fram á út af Covid-19. Annars er þetta árás á lífsgæði landsmanna.“ sagði Heiða Björg.

Hún segir að sveitarfélögin þurfi að geta mætt þeim fjölskyldum sem eru að missa vinnuna og leita til sveitarfélaganna eftir fjárhagslegum eða félagslegum stuðningi.

Halla Björk Reynisdóttir er bæjarfulltrúi á Akureyri.

Togstreita í gegnum tíðina

Halla Björk Reynisdóttir, bæjarfulltrúi á Akureyri segir að í gegnum árin hafi verið togstreita á milli ríkis og sveitarfélaga. Þetta sé þó að breytast núna og sérstaklega í kjölfar faraldurs kórónuveirunnar. Skilningurinn sé meiri og samtalið þéttara.

„Fyrir íbúa landsins skiptir það engu máli hvort ríki eða sveitarfélög sinni þjónustunni. Íbúar borga sína skatta og það er svo undir ríki og sveitarfélögum í sameiningu að finna bestu leiðina,“ sagði Halla.

Skortir skilning á stöðu sveitarfélaga

Heiða Björg segir að samtal hafi átt sér stað á milli ríkis og sveitarfélaga um stöðuna en að sklning skorti.

„Ég get hrósað ríkisstjórninni fyrir það að hún hefur verið tilbúin til þess að eiga þetta samtal við okkur en okkur finnst hafa vanta skilning á stöðu sveitarfélagana. Ég vil trúa því að hann komi,“ sagði Heiða.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.