Innlent

Ung­lings­­piltur gekkst við brota­hrinunni á Siglu­­firði

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Frá Siglufirði.
Frá Siglufirði. Vísir/Jói K.

Lögreglan á Norðurlandi eystra hafði í gær uppi á unglingspilti sem gekkst við fjölda brota á Siglufirði sem lögreglan hefur haft til rannsóknar síðustu daga. Drengurinn hefur náð sakhæfisaldri og verður mál hans sent ákæruvaldinu til meðferðar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögregluembættinu.

Þar kemur fram að brotin sem um er að ræða séu húsbrot, þjófnaður, innbrot og þjófnaður í grunnskóla og nytjataka og skemmdir á bifreiðum.

„Á fimmtudaginn komu fram vísbendingar sem beindu sjónum lögreglu að manni á Siglufirði. Hann var yfirheyrður á föstudaginn en neitaði sök og færðu þessar aðgerðir lögregluna ekki nær lausn málsins,“ segir í tilkynningu lögreglu.

Þá segir að í gærkvöldi, laugardagskvöld, hafi lögreglu borist ábending um ungan mann á Siglufirði sem svaraði til lýsingar á meintum geranda í málunum sem hafa verið til rannsóknar. Þegar lögregla hafi ætlað sér að ná tali af viðkomandi hafi hann hlaupið í burtu, en hann var handsamaður stuttu síðar. Þá kom í ljós að um unglingspilt væri að ræða.

Í framhaldinu hafi verið rætt við foreldra hans, auk þess sem sönnunargögn sem tengja hann við málið hafi komið í ljós.

„Fulltrúi frá barnaverndaryfirvöldum var kallaður til og síðan tekin skýrsla af piltinum, þar sem hann gekkst við að hafa verið að verki í öllum tilvikum. Hann hafi verið einn að verki og koma lýsingar hans heim og saman við þær tilkynningar sem lögreglu höfðu borist,“ segir í tilkynningunni. Þá kemur fram að drengurinn var látinn laus eftir skýrslutöku hjá lögreglu.

„Enn á eftir að hnýta upp nokkra lausa enda í rannsókninni og klára skýrslugerð. Að því loknu verður málið sent ákæruvaldi til meðferðar en pilturinn hefur náð sakhæfisaldri,“ segir að lokum í tilkynningunni.


Tengdar fréttir

Öskraði þegar hanskaklædd hönd kom inn um glugga á Siglufirði

Hann virðist hafa haldið áfram í nótt, þjófurinn sem lögreglan í Fjallabyggð varaði við í gær. Fjölskylda á Siglufirði varð nærri því fyrir barðinu á honum í nótt hanskaklædd hönd koma inn um glugga er þau sátu og horfðu á sjónvarpið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×