Fótbolti

Óttast að Kári sé brotinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kári í leiknum í gær.
Kári í leiknum í gær. vísir/vilhelm

Kári Árnason fer í myndatöku í dag til að kanna hvort hann sé fótbrotinn. Þetta staðfesti Freyr Alexandersson, aðstoðarþjálfari íslenska landsliðsins, í samtali við RÚV í dag.

Kári fór meiddur af velli undir lok leiks Íslands og Rúmeníu í gær. Kári glímdi við meiðsli í aðdraganda leiksins en náði að spila 86 mínútur í gær.

Að sögn Freys er ástandið á Jóhanni Berg Guðmundssyni og Alfreð Finnbogasyni gott en meiri óvissa ríkir með meiðsli Kára.

„Það verður að koma í ljós seinni partinn í dag en miðað við samtöl mín í gær við þessa tilteknu leikmenn að þá leið Jóa bara vel. Aðeins stífleiki hér og þar en það er ekkert óeðlilegt. Kári var hins vegar ekki góður, það verður bara að segjast. Við þurfum bara að vona það besta með hann. Við sjáum það seinni partinn. Hann fer í myndatöku í dag til að sjá hvort það sé eitthvað brot þarna. Vonandi er það ekki,“ sagði Freyr við RÚV.

Ísland mætir Danmörku á sunnudaginn og Belgíu á miðvikudaginn í Þjóðadeildinni. Í næsta mánuði er svo úrslitaleikur gegn Ungverjalandi um sæti á EM 2020.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×