Innlent

Kári hefði viljað taka lands­byggðina með

Birgir Olgeirsson skrifar
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.

„Ég held að það sé lífsnauðsynlegt að fara í hertar aðgerðir og vildi að okkur hefði borið gæfa til að fara í hertar aðgerðir fyrir tveimur vikum síðan,“ segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, spurður álits vegna frétta af tillögum sóttvarnalæknis um harðari aðgerðir á höfuðborgarsvæðinu sem hann hyggst senda ráðherra í dag. Boðað hefur verið til upplýsingafundar almannavarna klukkan 15 í dag. 

Aðgerðastjórn höfuðborgarsvæðisins fundaði í morgun vegna ástandsins. Er íbúar höfuðborgarsvæðisins hvattir til að halda sig eins mikið heima og þeir geta og öllum ráðlagt frá ferðum til og frá höfuðborgarsvæðisins nema brýna nauðsyn beri til. Hægt er að lesa nánar um tilmælin hér. 

Staðan á Landspítalanum er orðin mjög slæm og sagði Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar Landspítalans, að sterklega komi til álita að grípa til enn harðari aðgerða en tóku gildi í gær.

Kári segist sáttur við að tökin séu hert á höfuðborgarsvæðinu en telur ákveðna áhættu fólgna í því að undanskilja landsbyggðina.

„Þó svo að það hafi verið minna um smit utan höfuðborgarinnar held ég að við séum á það ógnvekjandi stað að kannski sé skynsamlegra að láta þetta gilda um land allt,“ segir Kári.

Hann segir tillögurnar skynsamlegar en ekki hafnar yfir gagnrýni. Aðgerðirnar hefðu að hans mati átt að gilda um allt land. Veiran sé búin að dreifa sér víða um höfuðborgarsvæðið. Miðað við hversu mikil umferðin er á milli höfuðborgarinnar og landsbyggðarinnar sé ekki ólíklegt að smituðum fari fjölgandi úti á landi.

„Ég hefði tekið landsbyggðina með.“


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×