Lífið

„Grenjaði úr mér augun í einn og hálfan tíma samfleytt“

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Aníta Briem leikkona vildi ala dóttur sína upp á Íslandi nálægt fjölskyldunni. Hún er því flutt í Vesturbæinn og gæti varla verið hamingjusamari með ákvörðunina.
Aníta Briem leikkona vildi ala dóttur sína upp á Íslandi nálægt fjölskyldunni. Hún er því flutt í Vesturbæinn og gæti varla verið hamingjusamari með ákvörðunina. Vísir/Vilhelm

„Lífið er fallegt þessa stundina,“ segir leikkonan Aníta Briem. Hún fór 16 ára á vit ævintýranna og flutti til London. Eftir meira en 12 ár í leiklistinni í Hollywood er hún nú flutt aftur heim til Íslands. Það var eftir sex mánuða dvöl hér á landi á síðasta ári í upptökum fyrir þættina Ráðherrann, sem Aníta byrjaði að íhuga að flytja með fjölskylduna á Klakann.

„Ég settist inn í sjálfa mig og sá allt rosalega skýrt og þá vaknaði þessi gríðarlega heimþrá.“

Spennandi tími í kvikmyndagerð á Íslandi

Eftir að Aníta var komin út aftur þá leið henni alls ekki vel og varð því mjög glöð að vera kölluð aftur til Íslands fyrir verkefnið Skjálfti, sem er byggt á bók Auðar Jónsdóttur. Bíómyndin kemur út á næsta ári.

 Síðan þá hefur hún leikið í nokkrum fleiri verkefnum hér á landi eins og Berdreymi og Svar við bréfi Helgu.

„Ég skil ekki hvað ég er ofboðslega lánsöm að vinna með svona stórkostlegu fólki.“

Aníta segist þakklát og að hún taki engu sem sjálfsögðum hlut.

„Þetta er mjög spennandi tími í kvikmyndagerð á Íslandi og mjög mikið af hæfileikaríku fólki.“

Í einlægu viðtali í Bakaríinu á Bylgjunni í gær ræddi leikkonan um ferilinn, Hollywood, ný verkefni, kvenleikstjórana hér á landi og ákvörðunina að flytja aftur heim. Viðtalið má hlusta á í spilaranum hér neðar í fréttinni.

Aníta BriemVísir/Vilhelm

Erfitt að vera ein

Í viðtalinu segir hún meðal annars að hún hafi ekki tekið ákvörðun um að flytja til Bandaríkjanna og „meika það“ heldur hafi þetta gerst þannig að eitt leiddi af öðru.

„Allt í einu var maður komin með teymi af lögfræðingum, umboðsmönnum, publishistum, stílistum. Allt í einu fer teymið í kringum þig að stækka.“

Aníta lýkir þessu við skrítna vél sem hafi þá farið af stað þar sem margir voru að segja henni að fara í ákveðnar áttir eða gera eitthvað ákveðið.

„Verandi þarna ein, þegar ég lít til baka, þá áttaði ég mig ekki alveg á því hvað ég hafði litla stjórn á þessu og hafði náttúrulega enga reynslu til þess að meta hlutina og varð svolítið blind að treysta því sem fólk sagði. Það er kannski það sem að eftir á hyggja var erfitt við að vera ein þarna, er að fólkið sem er að gefa þér ráð, er ekki fjölskyldan þín eða vinir þínir eða fólk sem er annt um þig sem manneskju eða hvernig hjartanu líður, þetta er bara fólk sem er partur af iðnaði.“

Það komu stundir á þessum tíma sem Aníta vaknaði og velti fyrir sér af hverju hún væri orðin svona tóm í hjartanu.

„Þetta fór svo ofboðslega hratt og stórt af stað að maður fór bara inn í einhvern svona hvirfilbyl.“

View this post on Instagram

How I miss my little chicken

A post shared by Ani ta Briem (@anitabriem) on

Væri sátt að fara aldrei í annað Hollywood partý

Hún segir þó að það hafi ekki verið auðvelt að segja eiginmanninum, Dean Paraskevopoulos, að hún vildi flytja til Íslands en þau voru að enda við að byggja sér einbýlishús í Los Angeles sem nú stendur þar autt.

„Ég vil vera hérna, ég vil að barnið mitt alist upp hérna og gangi í skóla hérna,“ útskýrir Aníta.

„Ég kveið því mjög mikið að eiga þetta samtal en svo ældi ég þessu út úr mér.“

Samtalið tók nokkra daga og á einum tímapunkti endaði leikkonan hágrátandi í eina og hálfa klukkustund í kirkjugarði í Reykjavík.

„Ég hef alltaf verið svolítið dramatísk,“ segir Aníta og hlær. Niðurstaðan var sú að hún gat ekki hugsað sér að fara aftur út til Ameríku, ekki einu sinni í eitt ár í viðbót.

„Hann er rosalega opinn og tilbúinn að prófa þetta, af því að hann veit hvað þetta er mikilvægt fyrir mig.“

Aníta segir að hún eigi ekki eftir að sakna glamúrsins í Los Angeles.

„Ef ég færi ekki aftur í eitt einasta Hollywood partý á ævinni, þá væri ég held ég mjög glöð með það.“

Viðtal Svavars og Evu Laufeyjar við Anitu Briem má heyra í spilaranum hér fyrir neðan. 

Aníta Briem var gestur í Einkalífinu hér á Vísi á síðasta ári og má horfa á það viðtal í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.